Á sama tíma og leikmenn íslenska landsliðsins í handknattleik leika fyrir heiðurinn á Evrópumótinu í handknattleik er leikmönnum nokkurra landsliða mótsins heitið góðum greiðslum fyrir að ná árangri á mótinu. Meðal annars fá leikmenn landsliðs Norður-Makedóníu jafnvirði 4,8 milljóna kr. lánist þeim að komast áfram í milliriðlakeppni mótsins. Þar á ofan eiga leikmenn von á viðbótargreiðslum fyrir hvern sigur í milliriðlum sem taka við af riðlakeppninni.
Landslið Norður-Makedóníu á sæti í B-riðli Evrópumótsins ásamt landsliðum Danmerkur, Portúgals og Rúmeníu. Tvö lið komast áfram í milliriðla.
Fjárhagur handknattleikssambands Norður-Makedóníu virðist nokkuð traustur vegna þess að það hefur í gegnum tíðina launað leikmönnum landsliða kvenna og karla þegar ákveðnum árangri er náð á stórmótum og eins fyrir að vinna sér inn sæti á stórmótum.
Fleiri handknattleikssambönd Evrópu semja við leikmenn sína um greiðslur fyrir að leika með landsliðum á stórmótum. Má þar m.a. nefna handknattleikssambönd Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs auk Þýskalands og Frakklands.
Á Íslandi hefur það ekki tíðkast að greiða leikmönnum fyrir að leika með landsliðinu á stórmótum enda hefur fjárhagur HSÍ aldrei boðið upp á það.
EM karla 2026 – leikdagar, leikstaðir, leiktímar




