„Ég held að það hafi alltaf fylgt mér að vera glöð og sýna af mér gleði. Ég er bara svona,“ segir Dana Björg Guðmundsdóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is. Dana Björg hefur vakið verðskuldaða athygli með landsliðinu á HM í handknattleik, ekki aðeins fyrir góða frammistöðu á leikvellinum heldur einnig fyrir geislandi glaðværð og hvatningu.
Dana Björg verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu á HM í kvöld þegar liðið mætir Spánverjum í Westafelenhalle í Dortmund klukkan 19.30.
Ekki gleyma sjálfri þér
„Þegar ég fór að spila með Volda þá fagnaði ég alltaf þegar aðrir í liðinu skoruðu en ekki þegar ég sjálf skoraði. Þjálfarinn benti mér á að gleyma ekki sjálfri mér. Síðan hef ég bara fagnað öllum mörkum og einnig þegar vel er gert á vellinum. Ég er hornamaður og stóla á sendingar frá liðsfélögunum. Þess vegna verður maður að sýna þakklæti fyrir sendingarnar,“ segir Dana Björg sem er 23 ára gömul og hefur búið í Noregi alla sína ævi að undanskildum fyrstu vikunum eftir fæðingu.

Ætla ekki að breytast
„Kannski finnst einhverjum framkoma mín vera pirrandi en það verður bara að hafa það. Ég ætla ekki að breytast,“ segir Dana sem leikið hefur 17 A-landsleiki og skorað í þeim 41 mark, þar af 14 mörk á HM sem er hennar annað stórmót með landsliðinu.
Fellur betur og betur inn í hópinn
Dana Björg segist falla vel inn í landsliðshópinn þótt í upphafi hafi hún ekki þekkt neinn samherja sinn. „Það var svolítið erfitt í upphafi, ekki síst vegna þess að íslenskan mín var ekki alveg fullkomin. En jafnt og þétt hefur mér farið fram og kynnst stelpunum betur og starfsfólkinu. Svo var ég heldur ekki alveg viss í upphafi hversu stórt hlutverk ég fengi í liðinu. Það hefur hins vegar stækkað jafnt og þétt. Mér gengur betur núna en á EM í fyrra,“ segir Dana Björg glaðleg á svip eins og hennar er von og vísa.
Móðir Dönu Bjargar er Inga Steingrímsdóttir og faðirinn Guðmundur Bragason. Dana á tvö systkini, Andra Snæ og Arna Sif, sem eru eldri. Andri Snær hefur þrisvar sinnum keppt fyrir Ísland í Motocross of Nations. Eftir því sem fram kemur í grein á mbl.is í maí 2022 þá eru Inga og Guðmundur landsþekkt vaxtarræktarfólk á Íslandi frá öldinni sem leið.
Leikmaður Volda Handball
Dana Björg, sem er 23 ára gömul, er alin upp í nágrenni Drammen en flutti til Volda sem er bær í Suðurmæri á Vestlandinu þegar hún gekk til liðs við Volda Handball sumarið 2022. Liðið lék þá í úrvalsdeildinni en er nú næst efstu deild.

Mikil æfingafjölskylda
Dana Björg segist alltaf hafa æft mikið og hafa af því ánægju. Það sé eitthvað sem henni er blóð borið. „Við erum mikil æfingafjölskylda og þegar við erum saman í fríi æfum við saman. Mamma er alltaf að setja saman æfingaplön. Það er skemmtilegt að prófa eitthvað nýtt og þróa sig áfram sem íþróttamaður,“ segir Dana Björg Guðmundsdóttir landsliðskona í handknattleik.
„Ég byrjaði ekki í handbolta fyrr en ég var 11 ára gömul. Fyrst var ég í dansi og prófaði reyndar fleiri íþróttagreinar. Allar vinkonur mínar voru í handbolta svo ég elti þær á æfingar. Hér er ég ellefu árum síðar,” sagði Dana Björg í viðtali við handbolti.is í október á síðasta ári þegar hún var valin í íslenska landsliðið í fyrsta sinn.



