- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Held að við getum gert góða hluti á HM

Arnar Pétursson landsliðsþjálfari og leikmenn fara yfir málin. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið hefur keppni á heimsmeistaramótinu í handknattleik kvenna á fimmtudaginn með leik við Slóvena í Stavangri. Eftir það taka við viðureignir við Frakka laugardaginn 2. desember og gegn Afríkumeisturum Angóla tveimur dögum síðar. Framhaldið ræðst af niðurstöðunni í leikjunum tveimur. Annað hvort tekur við milliriðlakeppni í Þrándheimi eða leikir um forsetabikarinn, sæti 25 til 32 í Frederikshavn í Danmörku.

Handbolti.is leitaði til Díönu Guðjónsdóttur fyrrverandi landsliðskonu og nú þjálfara hjá Haukum og yngri landsliða kvenna og lagði fyrir hana nokkrar spurningar um landsliðshópinn leik heimsmeistaramótið.

Sterkasti hópurinn

Fyrsta spurning er kannski hvernig líst þér á leikmannahópinn  sem var valinn. Er þetta okkar sterkasti hópur að þínu mati?

„Mér líst vel á hópinn. Er þetta ekki bara sterkasti hópurinn sem hægt var að velja í dag? Auðvitað vantar nokkra sterka leikmenn inn vegna meiðsla eða barneigna.  Sannarlega hefði verið gott að vera með t.d. með Elínu Klöru [Þorkelsdóttu] og Birnu Berg Haraldsdóttur. Birna Berg var í góðu standi fannst mér í upphafi móts hér heima og er líka með góða reynslu að spila sem atvinnumaður. Steinunni [Björnsdóttir] vantar einnig því línumanns staðan veldur mér smá áhyggjum. Einnig er hún bara karakter sem væri gott fyrir liðið að hafa á svona móti.“

Ég tel að í leikjunum við Angóla og Slóveníu geti allt gerst

Rífandi góð stemning ríkir innan íslenska landsliðshópsins vegna þátttökunnar á HM sem hefst undir mánaðamót. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Allt getur gerst

Hvaða væntingar megum við gera um árangur? Er það að þínu mati skylduverkefni að komast upp úr riðlinum?

„Það er alltaf gott að dreyma um væntingar en þetta verður mjög erfitt verkefni en margt sem getur gerst á svona stórmóti. Ég tel að í leikjunum við Angóla og Slóveníu geti allt gerst en verður erfitt og allir leikmenn þurfa að eiga toppleik. Ég tel að við eigum minni möguleika á móti Frökkum. Maður hefur heyrt að fólk er að tala um að við eigum að vinna Angóla en sá leikur verður erfiður. Hann er ekkert endilega skyldu sigur. Angóla er á sínu sautjánda HM móti, eru Afríkumeistarar og með reynsluna í þetta.“  

Það eru margir spennandi leikmenn á leiðinni á næstu árum.

Markverðirnir Elín Jóna Þorsteinsdóttir og Hafdís Renötudóttir. Mynd/HSÍ

Stutt til Noregs

Er það einhver áhætta að fara bara með tvo markmenn og eru þetta okkar bestu markmenn?

„Þetta er okkar besta markmannapar í dag. Auðvitað er það áhætta að fara með tvo markmenn en þar sem það er stutt héðan til Noregs þá tel ég þetta vera rétta ákvörðun að þriðji markmaðurinn bíði hér eftir heima og taka fleiri útileikmenn.“

Þetta er ungt lið sem er bara rétt að byrja á stóra sviðinu.

Lilja Ágústsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir eru að stíga sín fyrstu skref með A-landsliðinu. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Ungt landslið

Í þessum hóp eru aðeins sex atvinnumenn í 18 manna hóp. Sex útileikmenn sem hafa spilað yfir 40 landsleiki með æfingarleikjum. Er þetta áhyggjuefni?

„Auðvitað er þetta áhyggjuefni en svona er staðan bara. Við myndum vilja vera með fleiri að spila erlendis en það þannig að það eru leikmenn í þessum hóp sem eru að spila heima núna en hafa verið á stóra sviðinu erlendis eins og Þórey Rósa [Stefánsdóttir], Hildigunnur [Einarsdóttir] og fleiri.

Þetta er ungt lið sem er bara rétt að byrja á stóra sviðinu. Vonandi stíga leikmenn bara upp, njóta þess að vera á HM, sýna hvað í þeim býr og íslensku baráttuna sem kemur alltaf yfir alla þegar stórmót fara fram.  Eins og Arnar hefur talað um þá er þetta mikilvægt mót og vonandi nýtist það vel upp á framhaldið. Það eru margir spennandi leikmenn á leiðinni á næstu árum. Hópurinn sem skipar 20 ára landsliðið hefur verið að gera góða hluti undanfarin á og er á leiðinni á HM sumarið 2024.“

Leikmenn hafa vitað að álagið verður mikið og eru búnar að vera undirbúa sig fyrir það.

Mikið álag

Álagið á landsliðinu næstu vikur er mikið. Níu eða tíu leikir á 17-18 dögum. Auðvitað góð reynsla en verður það of mikið fyrir þennan hóp?

„Þetta er svona fyrir öll landsliðin sem eru að fara á HM og taka þátt í undirbúningsmóti. Leikmenn hafa vitað að álagið verður mikið og eru búnar að vera undirbúa sig fyrir það. Auðvitað myndi maður vilja spila alla þessa leiki á fleiri dögum en svona er mótið sett upp og við vælum ekkert yfir því, þetta er eins fyrir öll liðin. 

Ég vil bara óska liðinu góðs gengis á mótinu. Ég hlakka til að fylgjast með. Ég hef fulla trú á liðinu og held að við getum gert góða hluti,“ segir Díana Guðjónsdóttir handknattleiksþjálfari.

Leikir Íslands í D-riðli HM:
30. nóvember: Slóvenía – Ísland, kl. 17.
2. desember: Ísland – Frakkland, kl. 17.
4. desember: Angóla – Ísland, kl. 17.

  • Leikið verður í Stavanger Idrettshall (DNB-Arena) sem rúmar 4.100 áhorfendur í sæti.
  • Handbolti.is fylgir landsliðinu eftir á HM eins og grár köttur frá fyrsta leik til þess síðasta.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -