- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Held áfram meðan ég hef gaman af

Katrine Lunde, þrautreyndi markvörður Noregs. Mynd/Stanko Gruden / kolektiff
- Auglýsing -

Norski landsliðsmarkvörðurinn Katrine Lunde segist ekki hafa áform uppi um að leggja handboltaskóna á hilluna þótt hún sé orðin fertug. Lunde er samningsbundin Vipers Kristiansand, meistaraliðinu í Noregi, til ársins 2023. „Vonandi get ég haldið áfram út samningstímann. Mér líður vel og er í góðu formi. Þegar ég hef ekki lengur gaman af þessu þá hætti ég. Það er sennilega eina reglan sem ég hef sett mér,“ sagði Lunde á dögunum eftir að hún varð Evrópumeistari með norska landsliðinu.

„Ég hef aldrei velt því sérstaklega fyrir mér að vera svona lengi. Það eitt og sér hefur aldrei verið markmið. Ég hef gaman að handboltanum og verið nokkuð heppin með að hafa ekki meiðst oft á ferlinum,“ sagði Lunde við danska fjölmiðla að mótinu loknu. Fyrir utan krossbandaslit snemma árs 2019 segir Lunde hafa sloppið nokkuð vel.
„Ég er fyrst og fremst stolt og ánægð að geta enn lagt mitt af mörkum fyrir landsliðið. Vonandi get ég áfram lagt landsliðinu lið meðan ég er samningsbundin Vipers.“


Mikla athygli vakti þegar Lunde kom til móts við norska landsliðið í byrjun desember um það bil þegar EM var hefjast. Nokkrum dögum áður hafði hún misst fóstur. Lunde segist ekkert hafa verið í vafa um að koma til móts við landsliðið við þessar aðstæður. „Landsliðið eða landsliðhópurinn er mín önnur fjölskylda. Ég nýt þess að vera með hópnum og þegar svo er þá getur maður með réttu sagt það vera sína aðra fjölskyldu.“


Lunde lék fyrst með norska landsliðinu fyrir 18 árum. Landsleikirnir eru orðnir 305. Hún hefur verið einn fremsti markvörður heims um árabil og sem hluti af norska landsliðinu í svo langan tíma hefur hún m.a. tekið þátt í að vinna til átta gullverðlauna á EM, HM og Ólympíuleikum, einnig í Meistaradeild Evrópu, EHF-bikarinn, meistaratitla í Noregi og Danmörku með félagsliðum. Til viðbótar hefur hún í gegnum tíðina verið valin í úrvalslið allra stórmóta.


Lunde var með 38% hlutfallsmarkvörslu í þeim sex leikjum sem hún tók þátt í á EM í Danmörku sem lauk fyrir viku.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -