Handknattleikskonan unga, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, kvaddi uppeldisfélag sitt HK í sumar og gekk til liðs við sænska úrvalsdeildarliðið Önnereds eftir að hafa samið til þriggja ára. Dvölin hjá Gautaborgarliðinu varð snubbótt. Í byrjun október samdi Jóhanna Margrét við Skara HF frá samnefndum bæ í vestur Gautlandi.
„Það urðu breytingar á stjórn félagsins og um leið var skipt um stefnu. Menn vildu nýta sem mest af uppöldum leikmönnum og þar með féll ég ekki lengur inn í myndina,“ sagði Jóhanna Margrét þegar handbolti.is hitti hana að máli fyrir æfingu landsliðsins í TM-höllinni í gærkvöld.
Var vonbrigði
„Mér hafði gengið vel í þeim leikjum sem ég hafði tekið þátt í þegar breyting var á. Ég fékk skyndilega minna að spila og ljóst varð að ekki var talin lengur þörf á mér. Það voru vonbrigði. Ég var hinsvegar heppin að komast strax að hjá Skara HF sem er einnig í úrvalsdeildinni og Aldís Ásta Heimisdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir leika með,“ sagði Jóhanna Margrét sem er ánægð með hversu vel gekk að komast að annarstaðar.
Gekk hratt fyrir sig
„Ég var ekkert á heimleið eftir að hlutirnir gengu ekki upp hjá Önnereds. Ég var ákveðin í að halda áfram úti og komast að annarstaðar. Stuttur tími leið frá því að ljóst var að Önnereds dæmi gengi ekki upp þar til Skaraliðið kom inn í myndina. Allt gekk mjög hratt fyrir sig. Ég flutti nánast bara á einni helgi,“ sagði Jóhanna Margrét sem hefur komið sér fyrir í Skara og tekið þátt í tveimur leikjum í deildinni. Hún mátti sætta sig við að fylgjast með síðari bikarleik Skara HF og Kungälvs í 16-liða úrslitum í síðustu viku úr áhorfendastúkunni. Jóhanna er ekki gjaldgeng með liðinu í keppninni eftir að hafa leikið með Önnereds á fyrri stigum bikarkeppninnar.
Heimilislegt og afslappað
Jóhanna Margrét segir leikmannahóp Skara HF vera fámennari en hjá Önnereds. „Á móti kemur að það er allt mjög heimilislegt hjá Skara og afslappað. Mér líst vel á. Svo er geggjað að hafa Aldísi og Ásdísi með.“
Næsti leikur verður við Önnereds
„Ég er vongóð um að ganga vel hjá Skara HF. Útlitið er gott. Maður verður bara að sjá til hvernig hlutirnir þróast, sýna þolinmæði og gera sitt besta þegar tækifærin gefast. Fyrsti leikur okkar eftir landsleikjahléið verður einmitt gegn Önnereds. Ég hlakka til þess leiks,“ sagði Jóhanna Margrét Sigurðardóttir landsliðskona í handknattleik og leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Skara HF sem er með landsliðinu sem býr sig þessa dagana undir leiki við Ísrael í forkeppni HM snemma í nóvember.
Jóhanna Margrét verður væntanlega í eldlínunni með íslenska landsliðinu í vináttuleikjum í Færeyjum á laugardag og sunnudag.