Vegna yfirvofandi herts útgöngubanns í Skopje, höfuðborg Norður-Makedóníu, hefur verið ákveðið að flýta leikjum íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik í forkeppni HM sem fram fara á föstudag, laugardag og sunnudag. Íslenska landsliðið leikur við Norður-Makedóníu á föstudag, Grikki á laugardag og Litháen á sunnudag.
Útgöngubann frá 10 að kveldi til klukkan fimm að morgni er nú í gildi. Til stendur að herða það svo að það taki gildi klukkan 17 og standi til klukkan 5 að morgni, semsagt í 12 stundir á hverjum sólarhring.
Baráttan við kórónuveiruna gengur illa í Norður-Makedóníu eins og víða annars staðar.
Vel fer um íslenska hópinn í Skopje. Hann býr á hóteli við hlið keppnishallarinnar. Íslendingar hitta enga heimamenn aðra en starfsmenn hótelsins. Á hótelinu er sóttvarnir í hávegum hafðar.
Leikir Íslands í forkeppni HM:
19.mars, kl. 11.00: Ísland – Norður-Makedónía.
20.mars, kl. 13.00: Ísland – Grikkland.
21.mars, kl. 13.00: Ísland – Litháen.
Tvö lið af fjórum komast áfram í umspil um HM-sæti í vor.
Til stendur að öllum leikjum Íslands verði streymt. Nánari upplýsingar verða veittar þegar nær dregur og staðfesting á streyminu hefur fengist.