- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hetjuleg frammistaða Hauka nægði ekki

Rakel Oddný Guðmundsdóttir og félagar í Haukum lögðu allt í sölurnar í síðari leiknum við tékkneska liðið í dag. Ljósmynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -


Þrátt fyrir hetjulega baráttu og óbilandi vilja þá féllu Haukar úr leik í Evrópubikarkeppni kvenna í dag. Haukar unnu síðar leikinn við tékkneska liðið Hazena Kynzvart, 27:22, á heimavelli í dag. Það nægði ekki vegna 11 marka taps í fyrri viðureigninni í Cheb í Tékklandi um síðustu helgi. Haukar eru þar með úr leik eftir átta liða úrslit samanlagt, 58:52.


Haukar voru sjö mörkum yfir í hálfleik, 15:8, eftir að hafa komið leikmönnum Hazena Kynzvart í opna skjöldu í upphafi leiks og náð m.a. átta marka forskoti, 12:4, eftir um 20 mínútur. Reynt tékkneskt lið fór ekki á taugum heldur náði aðeins vopnum sínum sem nægði til þess að snúa ofan af þeirri stöðu sem upp var komin. Sabrina Novotná markvörður Hazena Kynzvart setti leikmönnum Hauka stólinn fyrir dyrnar hvað eftir annað með frábærri frammistöðu og yfir 50% hlutfallsmarkvörslu þegar dæmið var gert upp.

Í síðari hálfleik tókst Haukum að halda yfirhöndinni en ekki að klífa þrítugan hamarinn til enda sem þörf var á eftir 11 marka tap í fyrri viðureigninni.

Haukar hafa þar með lokið skemmtilegri og lærdómsríkri þátttöku sinni í Evrópubikarkeppni kvenna að þessu sinni.


Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 7, Inga Dís Jóhannsdóttir 6, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 4, Sara Marie Odden 4, Birta Jóhannsdóttir 2, Alexandra Líf Arnarsóttir 2, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1, Sara Katrín Gunnarsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 16, 42,1%.

Mörk Hazena Kynzvart: Marija Bozovic 7, Veronika Várrová 4, Katka Dresslerová 3, Kristýna Hejkalová 3, Kristýna Königová 2, Sofiia Bezrukova 1, Sárka Kapusniaková 1, Marie Poláková 1.
Varin skot: Sabrina Novotná 16, 51,6% – Adéla Srpová 3, 20%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -