Ein reyndasta og sigursælasta handknattleikskona landsins um árabil, Hildur Þorgeirsdóttir, hefur ákveðið að hætta. Hildur hefur um árabil verið kjölfesta í sterku liði Fram og verið í stóru hlutverki, jafnt í vörn sem sókn. Síðast í vor vann Hildur Íslands- og deildarmeistaratitilinn með Fram.
Hildur hóf ferilinn með FH, eins og fleiri í hennar fjölskyldu. Árið 2009 gekk hún til liðs við Fram og var í tvö ár. Frá 2011 til 2015 lék Hildur í þýsku 1. deildinni. Fyrst í tvö ár með Blomberg-Lippe og síðan í önnur tvö ár með Koblenz. Við heimkomu 2015 gekk Hildur á ný til liðs við Framara.
Á ferlinum varð Hildur þrisvar sinnum Íslandsmeistari með Fram, fjórum sinnum bikarmeistari og tvisvar deildarmeistari.
Um árabil átti Hildur sæti í íslenska landsliðinu og eru landsleikirnir 52. Hún var í landsliðinu sem tók þátt í EM 2012 í Serbíu.
Hin síðari ár hefur Hildur einnig þjálfað yngri iðkendur hjá Fram og m.a. varð fjórði flokkur kvenna Íslandsmeistari í vor undir stjórn Hildar.
Hildur sem er 33 ára gömul er komin á fullt í lögmennsku. Í skilaboðum til handbolta.is sagðist hún reikna með að snúa heim í FH og sinna kannski þjálfun yngri flokka. Handboltaskórnir væru á hinn bóginn komnir upp á hilluna og verða ekki teknir fram.
Hildur er annar leikmaður Fram sem kveður liðið eftir sigurinn í vor. Hinn er Emma Olsson sem flutti til Þýskalands og samdi við Borussia Dortmund. Í gær var greint frá því að Arna Sif Pálsdóttir hafi samið við Fram og Hekla Rún Ámundadóttir gekk til liðs við Fram fyrr í þessum mánuði.