Handknattleikskonan Hildur Lilja Jónsdóttir hefur ákveðið að kveðja KA/Þór og flytja suður yfir heiðar og ganga til liðs við Aftureldingu, nýliða Olísdeildar kvenna. Hildur Lilja hefur skrifað undir tveggja ára samning við Aftureldingu eftir því sem greint er frá á Facebooksíðu handknattleiksdeldar félagsins.
Hildur Lilja er nítján ára hefur leikið upp yngri flokkana og leikið með meistaraflokki KA/Þórs í Olísdeildinni undanfarin tvö keppnistimabil. Hún er örvhent og getur leikið bæði í hægra horni og í hægri skyttustöðunni.
Hildur Lilja skoraði 51 mark fyrir KA/Þór í Olísdeildinni í vetur. Hún hefur átt sæti í yngri landsliðum Íslands og var m.a. í U18 ára landsliðinu sem stóð sig frábærlega og hafnaði í áttunda sæti á HM í Norður Makedóníu í ágúst. Ekki er útilokað að Hildur Lilja verði í U19 ára landsliðinu sem tekur þátt í Evrópumótinu í Rúmeníu í byrjun júlí í sumar.
Hildur Lilja er annar leikmaðurinn sem gengur til liðs við Aftureldingu á nokkrum dögum. Fyrir helgina styrkti Saga Sif Gísladóttir markvörður lið nýliðanna með komu sinni.