- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hjá Aalborg Håndbold er ekki tjaldað til einnar nætur

Aron Pálmarssson í leik með Barcelona gegn Aalborg í vetur. Hann flytur til Álaborgar í sumar. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Danska handknattleiksliðið Aalborg Håndbold hefur verið á vörum margra handknattleiksáhugamanna og fjölmiðla undanfarna vikur eftir að það gerði óvænt samning við dönsku stórstjörnuna Mikkel Hansen skömmu eftir heimsmeistaramótið í Egyptalandi í janúar. Hansen er einn þekktasti íþróttamaður Dana. Hansen og Niklas Landin hafa undanfarin ár myndað hryggjarstykkið í frábæru dönsku landsliði sem hefur tvisvar í röð orðið heimsmeistari auk ólympíumeistaratitils 2016.

Forráðamenn Aalborg ætla sér ekki að tjalda til einnar nætur. Þeirra viðskiptamódel hefur sannað sig á undanförnum áratug. Áfram verður byggt á því og það styrkt. Til þess að afla er stundum nauðsynlegt að eyða um leið.

Einhver stefnubreyting

Í liðinni viku samdi Aalborg við Aron Pálmarsson og ekki dró úr undrun margra þegar frá því var greint. Milli þess sem samið var við Hansen og þangað til greint var frá komu Arons hafði Álaborgarliðið krækt í þekkta handknattleiksmenn sem leika í Þýskalandi. Vissulega var það til að fylla í skarðið fyrir aðra sem er á leið frá félaginu í önnur lið. En það er samt ákveðið stílbrot fólgið í komu Jesper Nielsen og Kristian Bjørnson sem er þekktir og reyndir leikmenn.


Hingað til hefur Aalborg frekar samið við upprennandi leikmenn og alið þá upp í stað þess að leita eftir reynslumönnum. Nærtækasta dæmið er e.t.v. Norðmaðurinn Sander Sagosen sem er að margra mati besti handknattleiksmaður heims um þessar mundir.

Fleirir bætast í hópinn

Martin Larsen er væntanlegur heim í sumar eftir veru í Þýskalandi. Hann þekkir vel til. Lék með Aalborg um árabil auk þess sem faðir hans, Jan Larsen, er maðurinn á bak við vöxt og viðgang félagsins og framkvæmdastjóri þess.

Mikkel Hansen er einn þekktasti og vinsælasti íþróttamaður Danmerkur um þessar mundir. Mynd/EPA


Orðrómur hefur verið uppi um að danski landsliðsmaðurinn Mads Mensah bætist í hópinn sumar 2022 þegar samningur hans við Flensburg rennur út. Fleiri hafa verið nefndir til sögunnar og ekki útilokað að fleiri íslenskir landsliðsmenn bætist í hópinn. Bjarki Már Elísson hefur til að mynda verið orðaður við félagið, hvað svo sem verður.

Full alvara í áformum sínum

Ljóst er forráðamenn Aalborg Håndbold, með fyrgreindan Jan Larsen í broddi fylkingar, er full alvara í áformum sínum um að búa til handknattleikslið sem getur orðið á meðal fjögurra bestu og helst það besta í Evrópu eftir tvö ár, jafnvel strax að ári.


Aalborg Håndbold er þegar komið í átta liða úrslit Meistaradeildar á þessari leiktíð og var á sömu leið fyrir ári þegar keppni var hætt. Sáralítið vantar upp á að liðið sé þegar á meðal fjögurra bestu. En þetta „sáralitla“ kostar sitt og í þetta „sáralitla“ vonast stjórnendur félagsins með að fá í komu Hansen og Arons og reynslumanna í aðrar stöður.

Stofnað fyrir áratug

Aalborg Håndbold A/S varð til árið 2011 eftir að rekstur AaB A/S var kominn að fótum fram. AaB A/S rak deildir með ólíkum íþróttgreinum. Ekki ósvipað mörgum félögum hér heima.


Upp úr rústum handknattleikshluta AaB var ákveðið að stofna sjálfstætt handknattleikslið karla í Álaborg, Aalborg Håndbold A/S. Það gekk að óskum og á skömmum tíma varð það eitt öflugasta og traustasta handknattleikfélag Danmerkur. Aalborg Håndbold hefur síðan orðið fjórum sinnum danskur meistari, 2013, 2017, 2019 og 2020, bikarmeistari 2018 og vann meistarakeppni Danmerkur, meistarar meistaranna, 2012, 2019 og 2020.

Allt annað módel en AG

Margir hafa líkt uppbyggingu og umsvifum Jan Larsen og forráðamanna Aalborg Håndbold við AG Köbenhavn-liðið sem ævintýramaðurinn og skartgripasalinn Jesper Nielsen, Kasi-Jesper, byggði upp fyrir röskum áratug og féll svo með braki og brestum sumarið 2012. Svo er ekki. Hér er um tvennt ólíkt að ræða. AG var byggt upp á veldi eins manns sem lifði hátt, ferðaðist í einkaflugvélum og þyrlum, átti höll með þyrlupalli á suðurhafseyju og var með ítök í fleiri félögum s.s. Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi.


Aalborg Håndbold A/S hefur verið byggt upp á öðrum og traustari forsendum síðasta áratuginn þótt eflaust sé eitt og annað í umgjörðinni s.s. þeirri sem snýr að samstarfsaðilum líkt og gert var hjá AG enda margt nýstárlegt gert þar á skömmum tíma og ekki allt tóm vitleysa.

Einn stórlax af mörgum

Aalborg Håndbold A/S hefur jafnt og þétt á nokkrum árum safnað að sér fjárhagslega sterkum einstaklingum og fyrirtækjum sem keppast við að tengja nafn sitt við félagið. Meðal efnamanna er Eigil Christensen sem seldi fyrirtæki sitt Color print fyrir nokkrum árum fyrir formúgur fjár. Eignir hans eru nú taldar hlaupa á milljarða tugum króna. Christensen er Álaborgarbúi og hann og eiginkonan hafa verið óspör á að láta fé af hendi rakna til ýmissa félaga í nærumhverfi sínu, þar á meðal til Aalborg Håndbold A/S. Ekki spillir heldur fyrir að á milli Christensen og Jan Larsen ríkir gamall og góður vinskapur.


Eigil Christensen er hinsvegar bara ein stoðin, vissulega sterk en ekki sú sem heldur öllu upp og greiðir allar innistæðulausu ávísanir félagsins. Síður en svo.

Eggin eru ekki öll í einni körfu


Hjá Aalborg Håndbold A/S eru ekki öll eggin í einni körfu sem hefur m.a. sýnt sig í að félagið stendur traustum fótum í dag þrátt fyrir erfiðleika meðal íþróttafélaga vegna kórónuveirunnar, tómra íþróttahalla, engra tekna af áhorfendum, þverrandi vilja margra fyrirtækja til að auglýsa á búningum og í tómum íþróttahöllum.

Nýta vaxandi áhuga


Stjórnendum Aalborg Håndbold A/S hefur tekist að nýta þá sprengingu sem orðið hefur á áhuga almennings fyrir handknattleik undanfarin áratug eftir að danska karlalandsliðið komst í allra fremstu röð og nú síðustu ár, fremst meðal jafningja.

Aron Pálmarsson með keppnispeysu Aalborg í höndunum. Mynd/Aalborg Håndbold


Aalborg Håndbold A/S hefur frá upphafi verið rekið með afgangi ár hvert. Sterkum bakhjörlum fer fjölgandi og koma Hansen, Arons og fleiri mun enn ýta undir vilja þeirra til að láta aukið fé af hendi rakna. Fleiri vilja nú ólmir bætast í hópinn, vera á meðal stjarnanna og greiða formúgur fjár fyrir að fylgjast með kappleikjum liðsins úr VIP-stúkum, auglýsa á vellinum og hafa nafn sitt á búningunum.

Uppselt á alla leiki

Áhorfendatekjur munu stóraukast á næstu leiktíð. Gigagntium-íþróttahöllin í Álaborg rúmar 5.000 áhorfendur. Nú þegar sjá forsvarsmenn Aalborg Håndbold A/S fram á að uppselt verður á alla heimaleiki liðsins, sennilega strax í sumar auk þess sem slegist verður um hvern einasta miða á leiki í Meistaradeild Evrópu og í dönsku bikarkeppninni sem ekki hefur alltaf átt upp á pallborðið hjá Dönum fyrr en komið er í undanúrslit. Samt kemur Hansen ekki til félagsins fyrr en sumarið 2022.


Þrýst er á yfirvöld í Álaborg að taka þátt í stækkun hallarinnar svo rúma megi 7-8.000 áhorfendur á leiki og aðstaða fyrir betur borgandi verði stórlega bætt.

Tekjur af sjónvarpsrétti og varningi


Með stórstjörnun vex áhuginn á kaupum á sjónvarpsrétti og í Danmörku liggja bærilegir peningar fyrir bestu liðunum. Allra bestu lið Meistaradeildar eru einnig farin að njóta vaxandi tekna Handknattleikssambands Evrópu með betri sjónvarpsréttarsamningum eftir því sem árin liða.


Sala á varningi félagsins hefur alltaf verið stór tekjuliður. Hún mun stóraukast við komu Hansens og Arons. Allir vilja vera í treyjum með nöfn þeirra á bakinu. Hansen er nánast í guðatölu meðal Dana á öllum allri.


Veitingasala á leikjum var einnig vaxandi tekjulind á árum fyrir kórónuveiruna. Víst má telja að veiran mun vart draga úr löngun Dana til að kneyfa öl, snæða pylsur og sópa í sig poppkorni, fyrir og eftir kappleiki og á meðan þeir standa yfir. Lystin verður síst verri þegar Hansen og Aron leiða Álaborgar-liðið til heimsyfirráða. Takist það verður síst minni ástæða til að segja skál í boðinu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -