- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

HK færist nær sæti í úrslitakeppninni í fyrsta sinn í 13 ár

Leó Snær Pétursson, HK. Dagur Árni Heimisson, KA, Nicolai Horntvedt Kristensen, markvörður KA. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -


HK steig í kvöld mikilvægt skref í átt að sæti í úrslitakeppni Olísdeildar karla í fyrsta sinn í 13 ár þegar liðið vann KA, 33:29, í síðasta leik 18. umferðar í Kórnum. HK hefur 16 stig í áttunda sæti deildarinnnar, er fjórum stigum á undan KA sem situr í níunda sæti. Hvort lið á fjórar viðureignir eftir. Auk fjögurra stiga forskots er HK með betri stöðu í innbyrðis leikjum.

HK komst síðast í úrslitakeppnina vorið 2012 þegar liðið tók keppnina með trompi og varð Íslandsmeistari í fyrsta og eina sinn til þessa. Á þeim árum var fjögurra liða úrslitakeppni sem m.a. kom í veg fyrir að HK endurtæki leikinn árið eftir þegar liðið hafnaði í fimmta sæti af átta liðum Olísdeildat. Eftir það tóku við ár þrautargöngu hjá liði félagsins.


HK var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 19:15, eftir að hafa verið yfir frá byrjun. Hjörtur Ingi Halldórsson fór mikinn á fyrstu mínútunum og skoraði þrjú fyrir mörk Kópavogsliðsins sem var vel stutt í góðri stemningu í íþróttasalnum í Kórnum.

KA-menn náðu áhlaupi snemma í síðari hálfleik og tókst að minnka muninn í tvö mörk. HK-ingar bitu í skjaldarrendur og náðu sjö marka forskoti, 28:21. Þar með var björninn unninn þótt sannarlega legðu KA-menn ekki árar í bát. Þeir reyndu hvað þeir gátu en munurinn var of mikill.

HK hafa sótt mjög í sig veðrið eftir því sem á tímabilið hefur liðið og m.a. unnið fjóra af síðustu fimm viðureignum sínum sem hefur skilað liðinu í góða stöðu.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Mörk HK: Leó Snær Pétursson 7/4, Hjörtur Ingi Halldórsson 6, Sigurður Jefferson Guarino 5, Benedikt Þorsteinsson 4, Aron Dagur Pálsson 4, Kári Tómas Hauksson 3, Ágúst Guðmundsson 2, Júlíus Flosason 1, Jovan Kukobat 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 13, 33,3%.
Mörk KA: Dagur Árni Heimisson 10/1, Einar Rafn Eiðsson 6/5, Arnór Ísak Haddsson 4, Einar Birgir Stefánsson 3, Ott Varik 2, Patrekur Stefánsson 2, Daði Jónsson 1, Logi Gautason 1.
Varin skot: Bruno Bernat 8/1, 28,6% – Nicolai Horntvedt Kristensen 2, 18,2% – Úlfar Örn Guðbjargarson 0.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -