Aftureldingarmenn tuskuðu nýliða HK til í viðureign liðanna að Varmá í kvöld. Segja má að einstefna hafi verið í leiknum frá upphafi til enda. Aftureldingarmenn léku HK-inga grátt í fyrri hálfleik og voru með 13 marka forskot, 22:9, þegar 30 mínútur voru liðnar af leiktímanum. Munurinn hélst í stórum dráttum allan síðari hálfleikinn, lokatölur að Varmá, 36:23.
Mestur varð þó munurinn 17 mörk í síðari hálfleik áður en Aftureldingarmenn slökuðu aðeins á klónni á síðustu mínútum.
Brynjar Vignir Sigurjónsson átti stórleik í marki Afureldingar. Hann varði 19 skot. Félagi hans Jovan Kukobat varði eitt vítakast.
Birkir Benediktsson lék í kvöld sinn fyrsta leik með Aftureldingu á leiktíðinni eftir að hafa jafnað sig af meiðslum.
Afturelding færðist upp í þriðja sæti Olísdeildar með sigrinum með sex stig en liðið hefur unnið þrjá leiki í röð.
Eftir athyglisverða frammistöðu í þremur fyrstu leikjum sínum í deildinni rákust HK-ingar á vegg í kvöld. Vörn liðsins var ekki góð að þessu sinni og Mosfellingar nýttu sér ennfremur stórleik Brynjars Vignis í markinu til keyra upp hraðann.
HK er með þrjú stig eftir fjóra fyrstu leikina og náð í þeim að sýna ýmsar hliðar.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Aftureldingar: Þorsteinn Leó Gunnarsson 7, Blær Hinriksson 6, Þorvaldur Tryggvason 5, Árni Bragi Eyjólfsson 4, Leó Snær Pétursson 4, Böðvar Páll Ásgeirsson 2, Stefán Magni Hjartarson 2, Jakob Aronsson 2, Gísli Rúnar Jóhannsson 1, Birkir Benediktsson 1, Birgir Steinn Jónsson 1, Andri Þór Helgason 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 19, Jovan Kukobat 1.
Mörk HK: Kristján Ottó Hjálmsson 7, Aron Gauti Óskarsson 3, Hjörtur Ingi Halldórsson 3, Arnór Róbertsson 2, Kári Tómas Hauksson 2, Sigurvin Jarl Ármannsson 2, Kristófer Ísak Bárðarson 1, Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha 1, Elías Björgvin Sigurðsson 1, Jón Karl Einarsson 1.
Varin skot: Róbert Örn Karlsson 8, Sigurjón Guðmundsson 4.