- Auglýsing -
- Auglýsing -

HK vill eina deild kvenna sem skipt verði upp um áramót

HK leggur til að leikið verði í einni deild kvenna á næsta keppnistímabili. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Handknattleiksdeild HK leggur til á ársþingi HSÍ sem fram fer á laugardaginn að breyting verði gerð á keppni í meistaraflokki kvenna um að leikið verði í einni deild ef að a.m.k. tíu lið skrá sig til leiks á Íslandsmótinu. Aðeins verði leikið í tveimur deildum ef 17 eða fleiri boða þátttöku. Alls voru 14 lið skráð til leiks í Olísdeild kvenna og Grill66-deild kvenna í vetur að undaskildum U-liðum.


Verði tillaga HK samþykkt á þinginu leggur félagið ennfremur til að leikin verði einföld umferð fyrir áramót, þ.e. að liðin mætist einu sinni. Um áramót verði deildinni skipt upp í tvo hluta. Leikin verði tvöföld umferð í báðum helmingum á nýju ári og að liðin í efri hlutanum leiki vitanlega til úrslita á Íslandsmótinu þar á eftir. Í neðri deildinni verði krýndur deildarmeistari þegar upp verður staðið.

Erfitt að halda velli og leikmönnum

Í greinargerð með tillögu HK segir m.a að breytingin eigi að auðvelda félögum að halda leikmönnum innan sinna raða. Einnig hafi það sýnt sig að bæði sé erfitt að komast upp í átta liða úrvalsdeild og halda velli í deildinni eftir að þangað er komið. Til viðbótar geti það reynst félögum auðveldara að fá til sín leikmenn þegar leikið verður í einni deild.


HK lagði einnig til breytingar á keppni í efstu deild kvenna á síðasta þingi en hafði ekki erindi sem erfiði. Þá var lagt til að fjölgað yrði úr átta í 10 í Olísdeild kvenna, eins og sjá í fréttinni hér fyrir neðan.


Að öðru leyti liggja ekki margar tillögur fyrir þingi HSÍ. Laganefnd HSÍ vill skýra orðalag varðandi félagaskipti.

Skerpt á þátttöku í ungmennaliðum

Einnig leggja Fjölnir og Vængir Júpíters til breytingar á reglugerð varðandi þátttöku ungmennaliða. M.a. að aldur leikmanna verði færður niður um eitt ár, niður í 22 ár og tveir leikmenn í stað fjögurra, sem léku síðasta leik með aðalliði félags, hafa heimild til að leika með ungmennaliði félagsins, uppfylli þeir aldursskilyrðið. Einnig er lagt að til að fella niður ákvæði um að stjórn HSÍ geti samþykkt undantekningar, hert verði á sektum og að leikmenn sem hafi leikið með A-landsliðum sé ekki heimilt að leika með ungmennaliðum, svo þess helsta sé getið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -