Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson var í dag ráðinn í starf faglegs ráðgjafa í teymi sem vinnur með afreksstefnu og afreksmál Handknattleikssambands Íslands. Koma Þóris er hvalreki fyrir handknattleikssambandið en hann á að starfa með landsliðsþjálfurum, íþróttastjóra HSÍ og öðrum þeim sem vinna að afreksstefnu HSÍ. Um hlutastarf er að ræða og mun Þórir áfram búa í Noregi þangað sem hann flutti til þriggja ára dvalar fyrir 39 árum í júlí í sumar.
Kem inn með mína reynslu
„Mitt hlutverk verður að koma inn með mína reynslu og þekkingu úr afreksstarfinu í Noregi síðustu 30 ár. Mér finnst þetta spennandi og hlakka til að vinna með fólki sem hefur brennandi áhuga. Við erum aðeins komnir af stað. Eins og öll ferðlög þá hefst það á einu litlu skrefi,“ sagði Þórir þegar handbolti.is hitti hann eftir að ráðning Þóris var kynnt á fundi í hádeginu.
Ekkert kvikk fix
Þórir segist nálgast verkefnið af auðmýkt og virðingu. „Það er ekkert til neitt kvikk fix. Sumt er hægt að setja í gang strax og sjá einhvern árangur af en mest af svona starfi er langhlaup. Það tekur 10 til 12 ár að búa til afreksfólk í handbolta, ef horft er til verðlauna á stórmótum. Þá miða ég við að byrja á unglingsaldri. Þannig að framundan er langhlaup,“ sagði Þórir ennfremur.
Ráðgjafi til stuðnings
„Ég er ráðgjafi og á að vera til stuðnings og ýta við, styðja við og hjálpa þjálfurunum og fagfólkinu og tengja saman þræðina,“ segir Þórir sem hefur störf nú þegar.
Gott að borga til baka
Þórir vinnur sjálfstætt að verkefnum eftir að hann hætti hjá norska handknattleikssambandinu um áramótin. „Þetta nýja verkefni er eitt þeirra sem ég brenn fyrir og vonast til að geta látið gott af mér leiða. Það er gaman að geta komið inn í íslenskan handbolta og borga eitthvað til baka.“
Lengra viðtal við Þóri er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Þórir Hergeirsson varð 61 árs 27. apríl. Undir hans stjórn frá 2009 hefur norska landsliðið unnið 11 sinnum til gullverðlauna á Ólympíuleikum, heims- og Evrópumótum, þrisvar sinnum silfurverðlaun og þrenn bronsverðlaun.
Á 20 stórmótum frá 2009 til 2024 vann norska landsliðið 17 sinnum til verðlauna undir stjórn Þóris og aldrei hafnaði það neðar en í 5. sæti.
Þórir hefur stýrt norska landsliðinu á fimm Ólympíuleikum og kom heim með verðlaun í hvert skipti, þrenn gullverðlaun og tvenn bronsverðlaun.
Áður en Þórir hóf störf hjá norska handknattleikssambandinu 2001 þjálfaði hann m.a. hjá Elverum, Gjerpen og Nærbø. Hann lét af störfum í lok síðasta árs eftir að hafa unnið gullverðlaun á Evrópmótinu.
Þórir hefur búið í Noregi frá júlí 1986. Hann er kvæntur Kirsten Gaard. Þau eiga tvær dætur og einn son.