- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hleyptum þeim hvað eftir annað inn í leikinn

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna var þjálfari ÍBV 2018. Mynd/Mummi Lú
- Auglýsing -

„Úrslitin voru svekkjandi því mér fannst við hafa ágætis tak á leiknum lengst af án þess að okkur tækist að nýta það til að ganga almennilega frá honum,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, í samtali við handbolta.is í morgun, daginn eftir eins marks tap íslenska landsliðsins fyrir Tyrkjum, 30:29, í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik en leikið var í Kastamonu í Tyrklandi. Heimaliðið var aðeins einu sinni með yfirhöndina í leiknum, þ.e. í lokin.


„Við hleyptum Tyrkjum hvað eftir annað inn í leikinn sem endaði með því að flest féll með þeim í lokin,“ sagði Arnar sem staddur var í langferðabifreið á leiðinni frá Kastamonu til Istanbúl þegar handbolti.is heyrði í honum hljóðið en því miður var símasambandið ekki eins og best verður á kosið.

Íslenska landsliðið er væntanlegt til landsins í dag og leikur öðru sinni við Tyrki á Ásvöllum á sunnudaginn klukkan 16.


Arnar sagði sóknarleik íslenska landsliðsins hafa verið góðan lengst af og að liðið hafi yfirleitt leikið sig í góð færi. Langt væri um liðið síðan íslenska landsliðið hafi skorað jafn mörg mörk í keppnisleik á útivelli og það gerði í gær.

Basl á varnarleiknum frá upphafi til enda

„Við vorum hinsvegar í basli með varnarleikinn frá upphafi til enda. Sama hvort við lékum 5/1 vörn eða 6/0. Takturinn náðist aldrei í vörninni og þar af leiðandi náðum við ekki að hjálpa markvörðunum okkar,“ sagði Arnar sem sagði ekkert annað komast að hjá leikmönnum en að gera betur á sunnudaginn í síðari viðureigninni.

Svörum fyrir okkur á sunnudaginn

„Við ætlum að svara fyrir okkur á sunnudaginn með betri leik, ekki síst varnarlega og komast inn á sporið á nýjan leik. Okkar markmið er að nýta þann tíma sem er fram að síðari leiknum til að þess að bæta okkar frammistöðu. Æfingarnar á morgun og á laugardaginn verða vel nýttar og allt lagt í sölurnar til þess að snúa taflinu okkar í hag. Hjá okkur er engin að hengja haus, það er bara áfram gakk,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari í handknattleik ákveðinn í slitróttu símsambandi við handbolta.is.


Síðari viðureign Íslands og Tyrklands í sjötta riðli undankeppni Evrópumótsins verður á sunnudaginn á Ásvöllum í Hafnarfirði. Olís býður öllum á leikinn meðan húsrúm leyfir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -