Franski markvörðurinn Vincent Gérard er sagður hafa í hyggju að taka fram keppnisskóna og hlaupa í skarðið hjá Evróumeisturum Barcelona til loka leiktíðarinnar í byrjun sumars. Frá þessu segir Barcelonablaðið Mundo Deportivo.
Vantar reynslu
Forráðamenn Barelona eru sagðir vilja fá reyndan markvörð inn í teymi liðsins fyrir endasprettinn í Meistaradeild Evrópu eftir að Gonzalo Pérez de Vargas sleit krossband fyrir nokkrum vikum. Danski landsliðsmarkvörðurinn Emil Nielsen er aðeins með ungan og lítt reyndan markvörð, Filip Saric, sér til halds og trausts. Framundan eru átta liða úrslit Meistaradeildarinnar og stjórnendur Barcelona leggja allt í sölurnar til að liðið verji titilinn, hið minnsta nái sæti í úrslitahelginni í Köln um miðjan júní.
Ekki margir kostir í stöðunni
Reyndir markverðir eru ekki á hverju strái með skömmum fyrirvara og enn síður vegna þess að félagsskiptaglugginn er lokaður nema þá fyrir samningslausa leikmenn.
Gérard er þar af leiðandi einn fárra kosta sem koma til greina.
Gérard, sem er þrautreyndur markvörður, lagði skóna á hilluna síðasta sumar að loknum Ólympíuleikunum í París. Hann uppfyllir skilyrði um að vera samningslaus og þar af leiðandi gjaldgengur í Meistaradeild Evrópu.