„Hlutirnir geta verið fljótir að breytast,“ segir handknattleiksmaðurinn Dagur Gautason sem fyrir nokkrum dögum var að búa sig undir að hefja keppni á ný með norska úrvalsdeildarliðinu ØIF Arendal að loknu vetrarhléi þegar forráðamenn franska stórliðsins Montpellier birtust og vildu kaupa hann strax undan samningi.
Innan við viku síðar hefur Dagur skrifað undir samning við Montpellier og leikur með liðinu á laugardaginn í átta liða úrslitum frönsku bikarkeppninnar og mætir síðan til leiks gegn svissneska liðinu HC Kriens-Luzern í 1. umferð 16-liða úrslita Evrópudeildarinnar á þriðjudagskvöldið.
Ég stökk á þetta um leið og það kom inn á borðið. Montpellier er risalúbbur á evrópskan mælikvarða. Þetta er frábært tækifæri
Voru ekki að tvínóna
Þegar sænski hornamaðurin Lucas Pellas sleit hásin fyrir nokkrum dögum voru forráðamenn Montpellier ekkert að tvínóna. Þeir voru fljótir að fanga Akureyringinn knáa.
„Samkomulag náðist á milli Arendal og Montpellier á sunnudagskvöld og ég var mættur á flugvöllinn í Montpellier á þriðjudaginn,“ sagði Dagur sem formlega var tilkynntur sem leikmaður Montpellier í morgun. Leikheimild frá franska handknattleikssambandinu berst væntanlega til Montpellier í síðasta lagi í fyrramálið.
![](https://handbolti.is/wp-content/uploads/2023/05/343929705_785421862879926_5209187834112121583_n.jpg)
Dagur, sem er 24 ára gamall vinstri hornamaður, hefur leikið undanfarin hálft annað ár með ØIF Arendal og gert það gott. Var hann m.a. valinn besti vinstri vinstri hornamaður norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og skoraði 133 mörk. Þar áður lék Dagur með KA og einnig um tveggja ára skeið með Stjörnunni. Dagur að ljúka BS-gráðu í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri í vor.
Möguleiki á ári í viðbót
Samningur Dags er til loka leiktíðarinnar en fyrir lok apríl, þegar reynsla verður komin á samstarfið, mun hann setjast niður með forráðamönnum Montpellier og varðandi árs framlengingu.
Ég er spenntur fyrir framhaldinu og líst vel á þótt áskorunin sé mikil að koma inn í nýtt lið á miðju tímabili þegar nokkrir dagar eru í fyrsta leik, kynnast nýjum samherjum og þjálfara. Ég tek þessari áskorun. Hún er skemmtileg
Ætlaði að breyta til í sumar
Þrátt fyrir gott gengi með Arendal segist Dagur hafa verið byrjaður að horfa í kringum sig eftir öðru félagi fyrir næsta keppnistímabil þegar óvænt tilboð franska liðsins rak á fjörurnar. Hann langaði að takast á við aðra áskorun. „Umboðsmaður minn var byrjaður að skima um á markaðnum þegar Montpellier kom skyndilega fram á sjónarsviðið og vildi fá mig einum grænum hvelli. Ég stökk á þetta um leið og það kom inn á borðið. Montpellier er risalúbbur á evrópskan mælikvarða. Þetta er frábært tækifæri,“ segir Dagur skiljanlega ánægður með nýja tækifærið.
Montpellier er í þriðja sæti frönsku 1.deildarinnar þegar keppni er hálfnuð með 25 stig að loknum 15 leikjum. Auk þess er liðið í 8-liða úrslitum frönsku bikarkeppninnar í riðlakeppni 16 liða Evrópudeildarinnar. Montpellier vann Meistaradeild Evrópu 2003 og 2018. Nikola Karabatic, einn fremsti handknattleiksmaður sögunnar steig sín fyrstu skref hjá liði félagsins og var m.a. í liðinu sem vann Meistaradeildina 2003.
Alþjóðlegur leikmannahópur
Dagur segir leikmannahóp Montpellier vera mjög alþjóðlegan og margir félaga hans tala ensku auk þess sem Norðmaður og Svíi eru hópnum svo skandinavískan dugir auk enskunnar. Dagur viðurkennir að frönskuþekkingin mætti vera betri en kvíðir ekki að fást við málið. „Annars er allur gangur á þessu hérna. Menn þýða hver fyrir annan ef eitthvað fer á milli mála.“
Tek þessari áskorun
„Ég er spenntur fyrir framhaldinu og líst vel á þótt áskorunin sé mikil að koma inn í nýtt lið á miðju tímabili þegar nokkrir dagar eru í fyrsta leik, kynnast nýjum samherjum og þjálfara. Ég tek þessari áskorun. Hún er skemmtileg,“ segir Dagur ákveðinn og bætir við: „Ég er spenntur að fá tækifæri til þess að sanna mig með góðu liði hjá sögufrægu félagi. Franska deildin er ein sú besta í heiminum. Ég er þakklátur fyrir tækifærið sem félagið gefur mér nú þegar það vantað mann.“
Þetta hefði aldrei komið upp ef ekki hefði verið fyrir Noregstímann. Segja má að ég hafi sprungið út í Noregi og þar með ljóst að ég steig rétt skref með því að fara til Arendal
Tveir Íslendingar hafa leikið með Montpellier, annarssvegar Geir Sveinsson frá 1995 til 1997 og hinsvegar Ólafur Andrés Guðmundsson leiktíðina 2021 til 2022.
![](https://handbolti.is/wp-content/uploads/2024/03/IMG_7222.jpg)
Ekki sjálfgefið
Dagur segist ennfremur vera þakklátur forráðamönnum ØIF Arendal fyrir að gefa sig eftir á miðju tímabili. Vissulega hafi félagið fengið eitthvað fyrir sinn snúið en það sé ekki alltaf allt.
„Að sama skapi var ekkert sjálfgefið að leyfa markahæsta manni liðsins fara þegar innan við vika er í fyrsta leik eftir hlé. Forráðamenn Arendal sýndu mér mikinn skilning og lögðu mér lið,“ segur Dagur.
Á einu og hálfu ári í Arendal má segja að Dagur hafi slegið í gegn. Hann var valinn besti vinstri hornamaður norsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og var markahæsti leikmaður félagsins í fyrra og það sem af er keppnistímabilinu sem nú stendur yfir.
Framfarir og reynsla
„Í Noregi hefur ég bætt mig mikið og fengið góða reynslu. Þetta hefði aldrei komið upp ef ekki hefði verið fyrir Noregstímann. Segja má að ég hafi sprungið út í Noregi og þar með ljóst að ég steig rétt skref með því að fara til Arendal,“ segir Dagur Gautason nýr liðsmaður franska liðsins Montpellier.