Í fyrsta sinn í yfir 20 ár verður Íslendingur í hópi eftirlitsmanna á heimsmeistaramóti í handknattleik þegar HM hefst í Danmörku, Króatíu og Noregi í næstu viku. Hlynur Leifsson hefur verið útnefndur eftirlitsmaður á leikjum HM sem fram fara í Herning á Jótlandi frá 14. til 26. janúar. Leikir A- og B-riðla fara fram í Jyske Bank Boxen í Herning auk þess sem milliriðill með liðum úr þess tveimur riðlum verður einnig leikinn þar.
Meðal liða í A- og B-riðli eru Þýskaland, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, og heimsmeistarar Danmerkur.
Spennandi verkefni
„Það verður mjög spennandi að takast á við þetta verkefni,“ sagði Hlynur þegar handbolti.is heyrði í honum í gærkvöld. Hann var þá að pakka niður í töskur fyrir úthaldið en að hefst í dag. „Ég fer til Zagreb á morgun [í dag] þar sem allir eftirlitsmenn koma saman á námskeiði þar sem farið verður yfir hvernig við eigum að sinna okkar starfi, farið verður yfir áherslumál og fleira í þeim dúr,“ sagði Hlynur sem var um árabil alþjóðlegur dómar og dæmdi m.a. á Evrópu- og heimsmeistaramótum landsliða.
Síðasta stórmótið sem Hlynur dæmi á var HM karla á Spáni 2013. Hann og Anton Gylfi Pálsson dæmdu þá annan undanúrslitaleikinn sem var að milli Spánar og Slóveníu.
Fór fljótlega í eftirlitið
Fljótlega eftir að Hlynur hætti að dæma tók hann að sér að vera eftirlitsmaður á leikjum hér heima í Olísdeildum kvenna og karla.
„Fyrir nokkrum árum var minnst á það við mig hvort ég hefði áhuga á að öðlast alþjóðleg réttindi sem eftirlitsmaður. Eftir að hafa velt því aðeins fyrir mér ákvað ég að slá til og öðlaðist réttindi fyrir tveimur árum. Síðan hef ég verið eftirlitsmaður á leikjum í Evrópumótum félagsliða og í sumar sem leið var ég einn af eftirlitsmönnum á leikjum í lokakeppni Evrópumóts 20 ára landsliða karla í Slóveníu,“ sagði Hlynur sem segir tækifærið nú vera það stærsta sem honum hefur verið boðið.
Íslenskir dómarar taka ekki þátt í heimsmeistaramótinu.
Kjartan á HM 2003
Eftir því sem næst verður komist hefur Íslendingur ekki verið eftirlitsmaður á leikjum á heimsmeistaramóti síðan Kjartan K. Steinbach þáverandi formaður dómaranefndar Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, sinnti því starfi á HM kvenna í Króatíu í desember 2003. Kjartan, sem lést 2018, var um langt árabil eftirlitsmaður á stórmótum auk þess að sitja stjórn IHF og vera formaður dómaranefndar í átta ár, 1996 til 2004.