Líklegt er að lið Grænhöfðaeyja leiki ekki fleiri leiki á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla að þessu sinni. Aðeins níu leikmenn eru eftir ósmitaðir eftir að tveir greindust smitaðir við síðustu skimun en niðurstaða hennar lá fyrir í dag. Leikmennirnir tveir sem smitaðir eru tóku báðir þátt í leiknum við Ungverja í gærkvöld. Það gæti orðið fyrsti og síðasti leikur Grænhöfðeyinga á HM að þessu sinni.
Í yfirlýsingu frá Alþjóða handknattleikssambandinu, IHF, segir að Grænhöfðeyingar geti framvísað vottorði um að báðir leikmenn hafi greinst með kórónuveiruna fyrir nokkru síðan. Engu að síður séu leikmenn komnir í einangrun og verða þar meðan þeir greinast smitandi.
Spurningin er sú hvaða áhrif þátttaka smitaðra leikmanna landsliðs Grænhöfðaeyja hafi á ungverska liðið en skemmst er að minnast þess að a.m.k. fjórir leikmenn danska úrvalsdeildarliðsins Ribe-Esbjerg smituðust af leikmönnum bandaríska landsliðsins í æfingaleik á dögunum.
Samkvæmt reglum HM þá verða lið að hafa a.m.k. heilbrigða útileikmenn og einn markvörð til þess að geta stillt upp í leik. Ljóst er að lið Grænhöfðaeyja stenst ekki þær kröfur lengur.
Grænhöfðeyingar áttu fullt í fangi með að skrapa í lið fyrir komuna til Kaíró um miðja vikuna vegna þess að hópsmit kom upp meðal leikmanna og þjálfara meðan liðið var í æfingabúðum í Portúgal. Auk nokkurra leikmanna þá varð landsliðsþjálfarinn eftir í Portúgal þar sem hann greindist með veiruna.
Næsti leikur Grænhöfðeyinga á að vera við Alfreð Gíslason og lærisveina hans í þýska landsliðinu á morgun.