- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Ævintýrið hófst í Magdeburg fyrir 63 árum

Úrklippa af frásögn Morgunblaðsins 4. mars 1958 af þátttöku Íslands á HM. Mynd/Skjáskot
- Auglýsing -

Ísland sendir lið til keppni á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi síðar í þessum mánuði. Það verður í 21. sinn sem Ísland tekur þátt í HM en mótið sem fyrir höndum stendur verður það 27. sem haldið er. Handbolti.is ætlar á næstu dögum að rifja upp eitt og annað úr fortíðinni um þátttöku Íslands. Einnig verða leikmenn íslenska landsliðsins á mótinu sem er framundan kynntir til leiks. Fleira verður tínt til auk þess sem eftir föngum verður fylgst með undirbúningi íslenska landsliðsins.

Í dag verður byrjað að segja frá þáttttöku íslenska landsliðsins á HM 1958 en það var í fyrsta sinn sem Ísland tók þátt. Hluti þessara greinar er byggður á samantekt minni um þátttöku Íslands sem ég skrifaði fyrir Morgunblaðið fyrir um áratug.

Allt frá fyrsta móti hefur íslenska landsliðið hrifið þjóðina með sér þegar það hefur tekið þátt í HM enda fyrstu hóplandslið Íslands til þess að taka þátt í liðakeppni stórmóts. Almenningur hefur fylgst spenntur með, fyrstu árin í gegnum dagblöð og útvarspfréttir og síðari setið yfir upptökum frá leikjum og síðar í beinum útsendingum og fréttum vef,- og prentmiðla. Hópurinn sem síðar fékk viðurefnið Strákarnir okkar hafa snert strengi og hrifið þjóðina með sér í gegnum tíðina. Ævintýrið hófst í Hermann Giesler Halle í Magdeburg í Þýskalandi í lok febrúar 1958. Nú 63 árum síðar sér ekki fyrir endann á því.


Ísland var fyrst með á heimsmeistaramóti karla í handknattleik árið 1958 er mótið var haldið í Austur-Þýskalandi. Þegar á hólminn var komið voru þátttökuþjóðir 16, tíu fleiri en á HM fjórum árum fyrr. Sami fjöldi þátttökuþjóða, 16, hélst, með einni undantekningu á HM 1961, allt þar til HM var haldið á Íslandi 1995. Þá var þátttökuliðum fjölgað um átta, uppi í 24, og hefur svo verið þar til nú að þau verða 32. Árið 1992 var Handknattleikssamband Evrópu stofnað og fyrsta Evrópumótið haldið 1994 og B-heimsmeistaramótin slegin af um leið. Síðast var blásið til leiks á B-heimsmeistaramóti árið 1992 í Austurríki. C-heimsmeistaramót, sem íslenska landsliðið tók aldrei þátt í, lögðust einnig af á sama tíma.

26 æfðu en 16 fóru

Sextán leikmenn voru valdir til fararinnar á fyrsta heimsmeistaramótið sem Ísland tók þátt í árið 1958. Voru þeir valdir úr hópi 26 sem höfðu æft um nokkurt skeið undir stjórn Hallsteins Hinrikssonar. HM-hópinn skipuðu: Birgir Björnsson, FH, bræðurnir Bergþór og Ragnar Jónssynir, FH, Einar Sigurðsson, FH, Guðjón Þ. Ólafsson markvörður úr ÍR, Gunnlaugur Hjálmarsson, ÍR, Hermann Samúelsson, ÍR, Hörður Jónsson, FH, Karl Benediktsson, Fram, Karl Jóhannsson, KR, Kristófer Magnússon markvörður úr FH, Reynir Ólafsson, KR, Sverrir Jónsson, FH, Valur Benediktsson, Val, Þórir Þorsteinsson, KR, og Kristinn Karlsson, Ármanni.

Upp kom ágreiningur

Upp kom ágreiningur innan landsliðsnefndar við valið á 16. manninum. Stóð valið á milli Kristins og Guðjóns Jónssonar úr Fram. „Stjórn HSÍ og þjálfari úrskurðuðu að Kristinn Karlsson skyldi vera 16. maður hópsins,“ segir í frétt Morgunblaðsins 4. febrúar 1958 þegar greint er frá valinu.

Landslið Íslands á HM 1958
Nafn, leikir - mörk
Guðjón Ólafsson, markvörður 3-0
Kristófer Magnússon, markvörður 3-0
Ragnar Jónsson, 3-12
Gunnlaugur Hjálmarsson, 3 -11
Birgir Björnsson, 3-13
Einar Sigurðsson, 3-6
Bergþór Jónsson, 3-1
Hermann Samúelsson, 3-1
Hörður Jónsson, 2-0
Karl Benediktsson, 2-0
Karl Jóhannsson, 3-2
Reynir Ólafsson, 1-0
Þórir Þorsteinsson, 1-0
Sverrir Jónsson
Valur Benediktsson
Kristinn Karlsson
Landsliðsþjálfari: Hallsteinn Hinriksson 

Íslenski hópurinn hélt út ásamt fararstjórn 26. febrúar. Flogið var til Kaupmannahafnar hvaðan átti að fljúga áfram til Austur-Berlínar. Slæmt veður var í Þýskalandi og ekki gerlegt að fljúga þangað þann daginn. Ljóst var að ferð landleiðina gæti tekið sinn tíma og jafnvel verið torsótt. Þegar útlit var fyrir betra veður daginn eftir voru allar áætlanir um ferðir með langferðabifreiðum og lestum til Austur-Berlínar lagðar til hliðar og ákveðið að taka áhættuna af því að hægt yrði að fljúga um daginn. Það gekk eftir.

Íslenska liðið kom til Austur-Berlínar fáeinum klukkustundum áður en fyrsti leikurinn í mótinu hófst. Þá var enn ófarin tveggja til þriggja stunda ferð til Magdeburg þar sem leikið var. Íslenska liðið mætti því ferðalúið til leiks en stóð sig eigi að síður vel og betur en margir höfðu reiknað með.

Gunnlaugur Hjálmarsson skoraði fyrsta mark Íslands á HM. Mynd/Skjáskot úr Morgunblaðinu

Gunnlaugur skoraði fyrstur


Fyrsti leikurinn var við Tékkóslóvakíu og tapaðist hann með 10 marka mun, 27:17.
„Gunnlaugur Hjálmarsson byrjaði á að skora fyrsta mark Íslands gegn Tékkum, sem svöruðu með átta mörkum í röð, 1:8, en Tékkar höfðu yfir í leikhléi, 9:15,“ segir m.a. í frásögn af fyrsta leiknum í bókinni „Strákarnir okkar“ sem Sigmundur Ó. Steinarsson blaðamaður skrifaði.


Ekki voru allir bjartsýnir fyrir fyrsta leikinn við Tékka eins og m.a. má lesa í frásögn Morgunblaðsins nokkrum dögum eftir að keppninni lauk. „Einn þjálfara í handknattleik hér heima hafði dreymt tölurnar 63 og 13 og setti drauminn í samband við úrslitin. En leikurinn fór 27:17. Það mega teljast mjög góð úrslit fyrir landa vora. Markatalan 27 er ekki ýkja há, og það sýnir að vörn Íslendinga hefur engan veginn staðið opin fyrir sóknarhörðum Tékkunum. Að Íslendingar skora 17 mörk sýnir að engan veginn hefur verið um „einstefnuakstur“ að ræða. Það má þvert á móti ætla að leikurinn hafi verið nokkuð jafn, en markvörður Tékkanna gert strik í reikninginn. Hann er af velflestum talinn bera af öðrum markvörðum sem sézt hafa í heiminum,“ segir m.a. í Morgunblaðinu þriðjudaginn 4. mars 1958.

Bæði skytta og markvörður

Eftir hvíldardag mætti íslenska landsliðið Rúmenum í öðrum leik hinn 1. mars og aftur í Hermann-Giesler Halle í Magdeburg sem enn stendur þótt keppnislið borgarinnar nýti hana ekki lengur til keppni.
Skemmst er frá því að segja að íslenska liðið lagði Rúmena, 13:11, í frábærum leik þar sem Hafnfirðingurinn Ragnar Jónsson varð markahæstur með fimm mörk auk þess sem hann hljóp í skarðið í markinu um stund eftir að Guðjón Ólafsson markvörður var rekinn af leikvelli „fyrir að hlaupa út á völl og sparka knettinum upp í áhorfendapalla,“ eins og segir í fyrrgreindri bók Sigmundar Ó. Steinarssonar.

Segja hinar óljósu fregnir…

„Markatalan gefur til kynna, að þarna hafi verið barizt af hörku – varnir beggja verið góðar og markmenn góðir, enda segja hinar óljósu fregnir er borizt hafa, að Guðjón Ólafsson hafi staðið sig með sérstökum glæsibrag í marki Íslands,“ sagði m.a. í frásögn Morgunblaðsins eftir sigurinn á Rúmenum, þeim fyrsta hjá íslensku landsliði á heimsmeistaramóti karla í handknattleik.


Íslenska liðið þurfti a.m.k. á jafntefli að halda í lokaleiknum til þess að komast áfram í millriðla. Það lánaðist ekki. Ungverjar spöruðu sínar helstu hetjur daginn gegn Tékkum og mættu því úthvíldir til leiks gegn Íslendingum og unnu með þriggja marka mun, 19:16, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik, 11:7.


Ungverjar og Tékkar komust upp úr riðlinum en Íslendingar og Rúmenar sátu eftir. Tékkar léku síðar til úrslita í mótinu en töpuðu fyrir Svíum, 22:12, í úrslitaleiknum. Þjóðverjar hrepptu þriðja sætið en Ungverjar höfnuðu í sjöunda sæti. Ísland hafnaði í 10. sæti af 16.

Miklu stærri vellir

Íslensku leikmennirnir gátu gengið stoltir frá þessari fyrstu þátttöku sinni á stórmóti í handknattleik. Þeir komu inn í nýjan heim og stóðust áskorun hans með miklum sóma. Á þessum árum var aðstaða til handknattleiks fornaldarleg, jafnvel á mælikvarða þjóða sem voru að rísa upp úr rústum sex ára styrjaldar.


„Það er ekki ólíklegt að keppnisaðstaða hafi ráðið miklu um úrslit í leikjum Íslendinga. Hér er til einn völlur að Hálogalandi, lítill og ófullkominn. Úti er keppt á stórum völlum allt að 25×50 m, eða nálægt helmingi stærri en að Hálogalandi. Það er ólýsandi munur að leika á litlum velli og stórum. Öll leikaðferð verður á annan veg og alla sókn og alla vörn verður að byggja upp frá gerólíkum sjónarmiðum á stórum völlum. Íslenzku piltarnir hafa mjög lítillega kynnzt stórum völlum. Þeir komu því ekki alveg eins og álfar til A-Þýzkalands. En leikir þeirra á stórum velli eru miklum mun erfiðari en á hinum litla, þegar þess er gætt að þeir æfa alltaf á litlum. Það má hiklaust ætla að þrír leikir hjá íslenzka liðinu (sennilega lítt breyttu frá leik til leiks) á fjórum dögum hafi verið liðinu ofraun við þessar framandi aðstæður,“ segir m.a. í frásögn Morgunblaðsins í mótslok.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -