- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Óvíst að öll kurl séu komin til grafar

- Auglýsing -
  • Þótt ekki sé enn búið að flauta til fyrsta leiksins á HM þegar þetta er skrifað er mótið þegar orðið sögulegt. Aldrei fyrr hafa tvö landslið orðið að hætta við þátttöku innan við sólarhring áður en flautað er til upphafsleiks mótsins og hefur HM karla þó verið haldið í 26 skipti áður. Hafi maður velt því fyrir sér að dauft yrði yfir fréttum í einangrun í herbergi 1215 á St Regis New Capital hótelinu í Kaíró í gærmorgun þá reyndust þær vangaveltur fljótlega óþarfar.
  • Strax fyrir hádegi fóru viðvörunarbjöllurnar af stað, ekki reyndar á hótelinu, heldur með fréttum um að margt benti til þess að alltént eitt landslið heltist úr lestinni áður en það mætti til Egyptalands. Fregnir af því að stór hluti bandaríska landsliðsins væri smitaður og verið væri að skrapa saman leikmönnum til að senda þjálfaralausa til Kaíró bentu til að sennilega yrði ekkert út þátttökunni þegar á hólminn væri komið. Sú varð raunin í gærkvöldi. Áður en að til þess kom gekk tékkneska landsliðið úr skaptinu.
  • Norður-Makedóníumenn tóku boði feginshendi enda búnir að vera með íþróttatöskuna í skottinu í nokkra daga þar sem það hefur legið í loftinu að eitthvað þessu líkt gæti átt sér stað. Fæstir áttu þó von á að tvö lið yrðu tilneydd til að hætta við þátttöku þrátt fyrir þá skrítnu tíma sem við lifum á. Ekki er víst að svissnesk nákvæmni og skipulag hafi verið eins vel undir það búin að fá boð um að mæta til Kaíró og það helst strax.
  • Margir telja að ekki séu öll kurl komin til grafar og áður en þessi nýi dagur verði á enda hafi þriðja landsliðið helst úr lestinni. Verði sú raunin bætist fimmti íslenski landsliðsþjálfarinn í hóp þjálfara sem stýra landsliði á þessu sögulega heimsmeistaramóti í landi Faróa og píramída við Nílarbakka. Eyjamaðurinn Erlingur Richardsson er næstur inn með hollenska landsliðið ef Grænhöfðeyingar verða að senda útgerð sína í slipp.
  • Ég var hreinlega óviss um hvort ég ætti að leggja til svefns upp úr miðnætti í gærkvöld af ótta við að missa af tíðindunum ef fleiri landslið neyddust til að leggja árar í bát. Hitt grunar mig að margir skipuleggjendar mótsins hafa ekki sofið vært þegar það er ekki enn ljóst hvaða lið taka þátt í mótinu sem hefst í dag.
  • Hvað sem öllu líður þá vona ég að maðurinn sem kom til að laga loftkælingu á herberginu í gær hafi alltént fengið hiksta. Þrátt fyrir miklar tilfæringar í drjúgan tíma og loforð um að allt væri í himnalagi þá fer hitinn í heberginu ekki upp fyrir 15,5 gráður á celsíus. Það er ekkert sérstak að vera í sóttkví í þeim hita. Ef slökkt er á lofkælingunni þá fer rafmagnið af herbeginu og illa má ég við því eftir að kúluritvélin var lögð til hliðar og tölvan tók við. Nógu var maðurinn brattur þegar hann kvaddi með skrúfjárnið í rassvasanum.
  • Ég get þó huggað mig við að ég hef nóg að gera og get þess utan farið út á svalir til að ylja mér í ríflega 20 gráðu hita sem þar er. Þá get ég alltént farið úr úlpunni sem ég klæðist hér við skrifborðið. Þess utan þá standa vonir til að einangrun ljúki í dag og þar með tími köldu kjötbollanna, loftfylltu brauðhornanna og skyndikaffisins. Nema að ekki séu öll kurl komin til grafar.

Ívar Benediktsson, [email protected]

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -