Heimsmeistaramótið í handknattleik karla í Egyptalandi nær hápunkti í dag þegar úrslitaleikur mótsins fer fram. Hálf þriðja vika með rúmlega 100 leikjum sem voru fleiri en nokkru sinni fyrr vegna þess að þátttökuliðum var fjölgað úr 24 í 32.
Í fyrsta sinn var mótið leikið fyrir luktum dyrum vegna kórónuveirunnar. Reyndar ætluðu mótshaldarar að leyfa takmörkuðum fjölda áhorfenda að mæta á leikina en í kjölfar mótmæla frá samtökum leikmanna var hætt við þau áform nokkrum dögum áður en flautað var til leiks.
Einnig varð í fyrsta sinn að skipta út tveimur liðum á síðustu stundu en landslið Bandaríkjanna og Tékka heltust úr lestinni fáeinum sólarhringum áður en þau áttu að mæta til leiks. Kórónuveiran lék landsliðshópa beggja liða grátt. Eftir að mótið hófst varð landslið Grænhöfðaeyja að draga sig úr keppni vegna þess að það uppfyllti ekki lengur kröfur um fjölda heilsuhraustra og leikfærra manna.
Í dag standa tvö lið, frá Danmörku og Svíþjóð, eftir taplaus og mætast þau í úrslitaleik klukkan 16.30. Um er að ræða áttunda úrslitaleik sænsks landsliðs um heimsmeistaratitilinn en í fimmta skipti sem Danir leika til úrslita. Þeir eru ríkjandi heimsmeistarar. Danir unnu Norðmenn í úrslitaleik á heimavelli fyrir tveimur árum, 31:22.
Þremur stundum áður en úrslitaleikurinn hefst eigast við aðrar grannþjóðir, Frakkland og Spánn, í leik um bronsverðlaunin. Bæði lið töpuðu í fyrsta sinn á mótinu í undanúrslitum á föstudaginn.
Leikir dagsins verða sýndir hjá RÚV.