- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Hvernig fara Ólympíumeistararnir af stað?

Leikmenn franska landsliðsins fagna eftir að hafa unnið úrslitaleikinn á Ólympíuleikunum á síðasta sumri. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Heimsmeistaramótið í handknattleik kvenna hefst á Spáni miðvikudaginn 1. desember. Þetta er fyrsta heimsmeistaramótið í kvennaflokki eftir að þátttökuliðum var fjölgað úr 24 í 32 með átta fjögurra liða riðlum.


Leikir mótsins fara fram í Barcelona, Granolles, Tarragona, Lleida, Castellón og Torrevieja.


Handbolti.is fjallar um mótið meðan á því stendur en einnig í aðdraganda þess. Frá og með deginum í dag og þangað til keppni hefst verður ljósi varpað á hvern riðil mótsins. Gengið verður á stafrófið og byrjað á A-riðli.

Flautað verður til leiks með viðureign Spánar og Argentínu í H-riðli í Palacio de los Deportes de Torrevieja 1. desember.

A-riðill

Þátttökulið eru Angóla, Frakkland, Slóvenía, Svartfjallaland.

Ríkjandi Ólympíumeistara Frakka bíður verðugt verkefni en þeir eru í riðli með tveimur Evrópuþjóðum, Svartfjallalandi og Slóveníu auk þess sem Angóla á þar sæti.  Það verður fróðlegt að sjá hvort að franska liðið heldur uppteknum hætti frá fyrri mótum og fari rólega af stað eða hvort það byrjar af fullum þunga.

Evrópuþjóðirnar þrjár í riðlinum þekkja vel hver til annarrar og hafa nokkrum sinnum áður verið saman í riðli á stórmótum, síðast á Evrópumótinu fyrir ári.

Sigursælir Frakkar

Frakkland vann þá lið beggja þjóða, 24-23 gegn Svartfjallalandi og 27-17 gegn Slóveníu. Frakkar hafa unnið 12 af 14 viðureignum gegn Slóveníu og þar af 10 af síðustu 11 á undanförnum 24 árum. Hinsvegar hafði Slóvenía betur, 24-23, á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi 2017.

Besti leikmaður Slóveníu, Ana Gros, þekkir vel til franska handboltans. Hún lék með Metz og Brest í Frakklandi í sjö ár áður en hún gekk til liðs við CSKA í Moskvu síðasta sumar.


Franska liðið hefur einnig haft betur gegn Svartfellingum undanfarin ár þar sem það hefur unnið átta af tíu viðureignum þjóðanna. Síðasti sigurleikur Svartfellinga á Frökkum var á Ólympíuleikunum í London 2012. Það er ljóst að reynslan sem býr í franska liðinu mun koma sér vel gegn reynslulitlu liði Svartfellinga sem er í uppbyggingu undir stjórn Bojönu Popovic.

Fyrsta HM Popovic í stól þjálfara

Frá því að Svartfjallaland hafnaði í sjötta sæti á Ólympíuleikunum í sumar hefur vinstri hornamaðurinn Mjada Mehmedovic lagt landsliðsskóna á hilluna. Hún skoraði 368 mörk í 135 leikjum. Þetta er einnig fyrsta heimsmeistaramótið sem Bojana Popovic stýrir liðinu. Hún vann til bronsverðlauna sem leikmaður á Ítalíu 2001 með landsliði Júgóslavíu (sameignlegt lið Serbíu og Svartfjalllands).

Svartfellingar hafa haft góð tök á Slóveníu til þessa og unnið allar fimm viðureignir liðanna á síðustu þrettán árum. Þetta verður þó í fyrsta skipti sem þjóðirnar mætast á heimsmeistaramóti.

Þungur róður framundan

Landsliði Angóla bíður erfitt verkefni að komast upp úr riðlinum. Liðið hefur unnið 27 af 90 leikjum á heimsmeistaramóti. Árangur þess gegn Evrópuþjóðum hefur ekki verið góður. Afríska liðið hefur aðeins lagt fimm Evrópuþjóðir. Það vinnur e.t.v. með Angólabúum hafa haft ákveðið tak á Slóvenum. Lið þjóðanna hafa mæst þrisvar sinnum og hefur Angóla unnið tvisvar sinnum en Slóvenía einu sinni.

Angóla hefur átt í erfiðleikum með Svartfjallaland til þessa og aðeins tekist að vinna einn af fjórum leikjum.

Einn sigur fyrir 14 árum

Árangur Angóla gegn Frökkum hefur heldur ekki verið góður. Þjóðirnar hafa mæst átta sinnum þar sem að ríkjandi Ólympíumeisturum hefur tekist að vinna sjö þeirra. Þjóðirnar hafa mæst á síðustu tveimur heimsmeistaramótum. Frakkar unnu, 26-19, í Þýskalandi 2017 og 28-17 í Japan 2019. Eini sigurleikur Angóla á Frökkum var í Frakklandi 2007, 29-27.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -