- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Marokkóbúum þraut kraftur

Hichem Kaabeche leikmaður Alsír fagnar í leiknum við Marokkó í kvöld. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Alsír vann ævintýralegan sigur á Marokkó, 24:23, á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í Kaíró í kvöld en liðin eru með Íslendingum og Portúgölum í riðli á mótinu. Marokkóbúar virtust hafa öll ráð í hendi sér eftir fyrri hálfleikinn þar sem Alsírbúar voru heillum horfnir og sjö mörkum undir, 15:8, þegar flautað var til hálfleiks.


Með réttu hefði munurinn átt að vera enn meiri á liðunum eftir fyrri helming leiksins. Leikmenn Alsír voru úti á þekju, jafnt í vörn sem sókn. Á sama tíma fóru Marokkómenn illa að ráði sínu í mörgum upplögðum marktækifærum. Til viðbótar fór Yassine Idrissi, markvörður, hamförum í mark Marokkó.

Umskiptu urðu á leiknum þegar á leið síðari hálfleik. Marokkómenn virtust ekki hafa þrek í leikinn þegar á reyndi. Jafnt og þétt misstu þeir tökin á leiknum í hendur Alsíringa sem skoruðu fjögur síðustu mörkin. Engu breytti þótt þjálfari marokkóska landsliðsins reyndi að blása sínum mönnum baráttuanda í brjóst. Leikmenn hans færðu leikmönnum Alsír boltann á silfurfati hvað eftir annað. Síðustu mínúturnar virtust Marokkóbúar vera alveg orðnir bensínlausir.

Alsírmenn fögnuðu ógurlega en þeir taka þátt í HM í fimmtánda sinn og í fyrsta sinn frá 2015. Marokkó er með á HM í sjöunda sinn en 14 ár eru liðin síðan þeir voru með.

Af þessum leik að dæma verður það hreinlega að teljast stórslys tapi íslenska landsliðið fyrir þessum tveimur norður-Afríkuríkjum á laugardag og mánudag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -