Ólympíumeistarar Frakka mæta Dönum í undanúrslitum á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik á föstudaginn. Frakkar unnu öruggan sigur í Svíum í síðasta leik átta liða úrslita HM í kvöld, 31:26. Svíar pakka þar með saman föggum sínum í fyrramálið og halda til síns heima eftir að hafa leikið vel á mótinu.
Sænska liðið mætti ofjörlum sínum að þessu sinni og tapaði sínum fyrsta leik á mótinu. Frakkar hafa unnið sjö leiki á mótinu eins og Danir sem verða andstæðingur þeirra í undanúrslitum.
Jafnt var að loknum fyrri hálfleik í kvöld, 15:15. Franska liðið tók frumkvæðið í upphafi þess síðari og var komið með fimm marka forskot eftir tíu mínútur, 22:17. Sama var hvað Svíar reyndu, Frakkar héldu þeim alltaf í hæfilegri fjarlægð.
Leikur Frakkar og Dana í undanúrslitum á föstudaginn hefst klukkan 16.30. Hinn undanúrslitaleikurinn á milli Noregs og Spánar byrjar klukkan 19.30.
Mörk Frakka: Alicia Toublanc 4, Laura Flippes 4, Coralie Lassource 4, Meline Nocandy 3, Pauletta Foppa 3, Chloe Valentini 3, Allison Pineau 3, Oceane Sercien Ugolin 3, Grace Zaadi Deuna 2, Cleopatre Darleux 1, Orlane Kanor 1.
Mörk Svía: Nathalie Hagman 9, Linn Blohm 6, Jenny Carlson 3, Carin Stromberg 2, Nina Dano 2, Elin Hansson 2, Anna Lagerquist 1, Jamina Roberts 1.
Úrslit réðust í dag í keppninni um forsetabikarinn. Angóla vann Slóvaka, 23:21, fer með forsetabikarinn í farteskinu heim á morgun.