Suður Kórea og Króatía unnu tvo fyrstu leikina í milliriðlakeppni heimsmeistaramóts kvenna í dag. Sigur Suður Kóreu var öruggur á Tékkum, 32:26. Tékkar náðu aldrei að ógna liði Suður Kóreu sem fór á kostum, ekki síst í fyrri hálfleik. Hraði leikmanna Suður Kóreu reyndist stórum sterkbyggðum leikmönnum Tékka erfiður. Segja má að lið Suður Kóreu hafi tryggt sér sigurinn í fyrri hálfleik en það var með sex marka forskot að honum loknum, 20:13.
Kim Jinyi skoraði átta mörk fyrir Suður Kóreu og Migyeong var næst með sjö mörk. Jinhui Jeong átti afar góðan leik í marki suður kóreanska liðsins. Hún varði 16 skot, 38%.
Charlotte Cholevova var hjá Tékkum með sex mörk og Sara Kovarova var næst með fimm mörk.
Króatar voru í basli
Króatar áttu hinsvegar í mesta basli með sprækt lið Argentínu sem hefur heldur betur sótt í sig veðrið eftir skellinn á móti Spánverjum í upphafsleik keppninnar. Króatíska liðið var tveimur mörkum undir, 21:19, þegar tíu mínútur voru eftir. Þá virtust argentínsku leikmennirnir vera orðnir uppgefnir. Króatar gengu á lagið og skoruðu hvert markið á fætur öðru á síðustu mínútunum og unnu að lokum með sex marka mun, 28:22.
Stela Pocavec skoraði átta mörk fyrir Króata en Luvciana Mendoza og Malena Cavo skoruðu fimm mörk hvor fyrir argentínska liðið.
Klukkan 17 mætast Þýskaland og Kongó annarsvegar og Brasilía og Austurríki hinsvegar. Síðari leikurinn verður sýndur á RÚV2.
Spánn og Japan eigast við klukkan 19.30 og einnig Danmörk og Ungverjaland sem einnig verður hægt að fylgjast með á RÚV2.