„Áhuginn fyrir leiknum er mjög mikill. Ég sé ekki fram á annað en að Höllin verði uppseld og stemningin verði frábær á stórleik með strákunum okkar,“ segir Kjartan Vídó Ólafsson markaðsstjóri HSÍ spurður um væntanlega aðsókn á fyrri viðureign Íslands og Eistlands sem fram fer í Laugardalshöll annað kvöld, miðvikudag, í umspili um sæti á heimsmeistaramótinu í handknattleik. Nokkrir miðar eru ennþá óseldir. Kjartan segir miðasölu hafa verið líflega í dag og í gær.
Fjölskylduskemmtun frá klukkan 18
Leikurinn hefst klukkan 19.30 en klukkan 18 hefst í Laugardalshöll fjölskylduskemmtun á vegum Boozt, eins af aðal stuðningsaðilum HSÍ og landsliðanna. Þar verður m.a. boðið upp á andlitsmálun, lukkuhjól auk margs annars sem gert verður til gamans.
Sérsveitin á staðnum
Ekki má heldur gleyma að Sérsveitin, stuðningsmannafélag íslensku landsliðanna, lætur sig ekki vanta í Laugardalshöllina og mun sjá um keyra upp fjörið utan vallar.
„Landsliðin okkar hafa alltaf getað treyst á frábæran stuðning á heimavelli. Laugardalshöllin hefur verið okkar vígi og fleytt okkur langt í erfiðum leikjum í undankeppni stórmóta svo áratugum skiptir,“ segir Kjartan Vídó.
Yngri landsliðin með veitingasölu
Að vanda verður veitingasala í Laugardalshöllinni á vegum unglinglandsliðanna sem nú safna fyrir kostnaðarsömum verkefnum sumarsins. Allur hagnaður af veitingasölunni rennur til yngri landsliðanna og því er tilvalið að styrkja yngri landsliðin um leið og A-landslið karla er hvatt til dáða inni á leikvellinum.
Farmiði á HM 2025
Um er að ræða fyrri viðureign Íslands og Eistlands í undankeppni heimsmeistaramótsins. Síðari leikurinn fer fram í Tallin á laugardaginn. Samanlagður sigurvegari leikjanna tryggir sér þátttökurétt á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Danmörku, Noregi og Króatíu í janúar á næsta ári.