- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Spænska landsliðið vonast til að komast á flug

Almudena Rodriguez, landsliðsmaður Spánar, sækir að vörn þýska landsliðsins í vináttuleik Spánar og Þýskalands um síðustu helgi. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Heimsmeistaramót kvenna í handknattleik hefst á Spáni í kvöld og lýkur 19. desember. Í upphafi verður leikið í átta fjögurra liða riðlum. Handbolti.is hefur síðustu daga fjallað um hvern riðil. Við hæfi er að ljúka umfjölluninni um áttunda og síðasta riðilinn hér fyrir neðan. Tenglar á fyrri greinar eru að finna neðst í þessari grein.


Upphafsleikur HM verður á milli landsliða Spánar og Argentínu í Palacio de los Deportes á Torrevieja í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 19.30. Mótið fer á fulla ferð á morgun með sjö leikjum og átta leikjum á föstudaginn.

H-riðill
Þátttökuþjóðir: Argentína, Austurríki, Kína, Spánn.


Spánverjar, sem náðu í silfurverðlaun á HM 2019 í Japan, eru sigurstranglegastir í riðlinum. Augu flestra beinist að spænska liðinu sem mun hafa áhorfendur á bak við sig en til þess verður liðið að fara vel af stað, hrífa landa sína með sér.


Ekki er endilega bjartsýni í herbúðum spænska liðsins fyrir mótinu í heild þótt leikir riðlakeppninnar eigi ekki endilega að vefjast fyrir því. Spænska landsliðið náði sér ekki á flug á Ólympíuleikunum í sumar þar sem það hafnaði í níunda sæti. Var það versti árangur spænska kvennalandsliðsins á Ólympíuleikum. Í framhaldinu var gripið til þess ráðs að segja Carlos Viver þjálfara upp störfum. Við starfinu tók Jose Ignacio Orades. Heldur var uppskeran á EM í Danmörku fyrir ári rýr.

Góður árangur

Spánverjum hefur í gegnum tíðina gengið afar vel gegn landsliðum þeirra þjóða sem eru með þeim í G-riðli. Þeir hafa t.d. aldrei tapað fyrir Argentínu í þeim fjórum landsleikjum sem þjóðirnar hafa leikið. Aldrei hefur einu sinni myndast spenna. Síðasti leikurinn var í forkeppni Ólympíuleikanna í vor þegar Spánverjar unnu með 15 marka mun, 31-16.


Spánn vann öruggan sigur á Kína í eina leik þjóðanna í handknattleik kvenna, 27-12, á HM í Kína árið 2009. Eins hefur austurríska landsliðinu aldrei tekist að leggja stein í götu spænska landsliðsins í gegnum tíðina þótt litlu hafi munað á HM þegar Spánn vann með einu marki, 27-26.

Án þjálfaranna eftir 12 ára fjarveru

Austurríki er að taka þátt í heimsmeistaramóti eftir 12 ára fjarveru og mætir til leiks með ungt og spennandi lið. Það getur sett strik í reikning austurríska landsliðsins að þjálfarinn Herbert Müller, og aðstoðarþjálfarinn Erwin Gierlinger, verða ekki með liðinu framan af mótinu hið minnsta. Einnig varð handknattleikskonan Katarina Pandza eftir heima Öll sýktust þau af kórónuveirunni rétt áður en landsliðið lagði af stað til Spánar.

Austurríska landsliðinu hefur ekki gengið sem allra best gegn landsliði Kína í gegnum tíðina. Kína vann síðustu viðureign þjóðanna, 29-26, sem fór fram árið 2011.


Argentína og Austurríki mætast í fyrsta sinn í mótsleik en þjóðirnar mættust í vináttulandsleik árið 2016 þar sem Austurríki hafði betur 22-18.


Telja verður líklegt að baráttan um þriðja sætið í riðlinum standi á milli Kína og Argentínu. Í þremur landsleikjum þjóðanna í gegnum tíðina hefur kínverska liðið unnið tvisvar en Argentína einu sinni.

Tengill á fyrri greinar:
A-riðillB-riðillC-riðillD-riðillE-riðillF-riðill, H-riðill.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -