Evrópumeistarar Noregs í handknattleik kvenna, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, unnu 11 marka sigur á Rúmeníu í fyrsta alvöru leik liðsins á heimsmeistaramótinu í handknattleik á Spáni í kvöld, 33:22. Væntanlega hefur norska landsliðið slegið tóninn fyrir framhaldið í keppninni þótt það eigi reyndar einn auðveldan leik eftir á fimmtudaginn gegn Púertó Ríkó.
Síðarnefnda þjóðin komst áfram með sigri á Usbekistan í kvöld, 30:24. Eftir að hafa tapaði með 40 marka mun fyrir hollenska landsliðinu og með 38 mörkum fyrir Svíum er ekki líklegt að landslið Púertó Ríkó geri norska landsliðinu skráveifu á fimmtudagskvöldið í Castelló.
Eftir leikinn á fimmtudaginn taka við hörkuleikir hjá Þóri og leikmönnum hans, gegn Svíum og heimsmeisturum Hollendinga, áður en milliriðlakeppninni verður lokið á mánudagskvöld.
Kari Brattset var markahæst í norska liðinu í kvöld á móti rúmenska landsliðinu. Hún skoraði sjö mörk í átta skotum. Stine Oftedal og Veronica Kristiansen skoruðu fimm mörk hvor. Markvörðurinn Katrine Lunde fór á kostum og varði 19 skot, 54%, og var valin maður leiksins. Cristina Laslo var markahæst í rúmenska liðinu með sex mörk.
Heimsmeistarar Hollands gerðu jafntefli við Svía, 31:31, í uppgjöri tveggja bestu liðanna í D-riðli og fara þar af leiðandi með þrjú stig hvort inn í milliriðla. Svíar voru marki yfir í hálfleik, 18:17, en annars var leikurinn hnífjafn og spennandi frá upphafi til enda. Debbie Bont skoraði sex mörk fyrir hollenska landsliðið. Jamina Roberts var frábær í sænska landsliðinu og skoraði átta mörk.
Úrslit kvöldsins og lokastaðan
A-riðill:
Angóla – Slóvenía 25:25.
Frakkland – Svartfjallaland 24:19.
Lokastaðan:
B-riðill:
Kamerún – Pólland 19:33.
Rússland – Serbía 32:22.
Lokastaðan:
C-riðill:
Púertó Ríkó – Usbekistan 30:24.
Holland – Svíþjóð 31:31.
Lokastaðan:
D-riðill:
Kasakstan – Íran 31:25.
Noregur – Rúmenía 33:22.
Lokastaðan:
Í milliriðli eitt verða:
Frakkland 4 stig, Rússland 4 stig, Slóvenía 2 stig, Serbía 2 stig, Pólland 0 stig, Svartfjallaland 0 stig.
Í fyrstu umferð á fimmtudag mætast:
Frakkland – Pólland.
Rússland – Slóvenía.
Svartfjallaland – Serbía.
Í milliriðli tvö verða:
Noregur 4 stig, Holland 3 stig, Svíþjóð 3 stig, Rúmenía 2 stig, Kasakstan 0 stig, Púertó Ríkó 0 stig.
Í fyrstu umferð á fimmtudag mætast:
Noregur – Púertó Ríkó.
Holland – Rúmenía.
Kasakstan – Svíþjóð.