Handbolti.is heldur áfram að kynna þá leikmenn sem keppa fyrir Íslands hönd á HM í handknattleik sem hefst í Egyptalandi 13. janúar. Flautað verður til fyrsta leiks Íslands á mótinu daginn eftir en þá mætir íslenska landsliðið Portúgölum.
Tuttugu leikmenn eru í landsliðshópnum og er reiknað með að sá fjöldi fari til Egyptalands þótt aðeins megi tefla 16 leikmönnum fram í hverjum leik.
Næstur í röðinni er Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður. Hlekkur á fyrri kynningar er að finna neðst í þessari grein og svo verður framvegis þar til kynningum lýkur um það bil þegar flautað verður til leiks á HM í Egyptalandi þar sem handbolti.is verður á staðnum og mun fylgjast með keppninni eftir föngum og ströngustu sóttvörnum.
Viktor Gísli Hallgrímsson
Viktor Gísli er 20 ára gamall markvörður danska úrvalsdeildarliðsins GOG á Fjóni í Danmörku en liðið varð bikarmeistari í haust. Var það fyrsti stóri titilinn sem Viktor Gísli vinnur með meistaraflokksliði. Hann er yngsti leikmaður landsliðsins um þessar mundir. Viktor Gísli er hávaxnasti leikmaður hópsins, 203 sentímetrar.
Viktor Gísli tók þátt í sínu fyrsta stórmóti með A-landsliðinu á EM fyrir ári síðan. Hann var í úrtakshópnum fyrir HM í Þýskalandi fyrir tveimur árum síðan en sat eftir heima þegar keppnishópur Íslands á mótinu var valinn. Viktor Gísli á að baki 18 A-landsleiki.
Fyrsta A-landsleik sinn lék Viktor Gísli gegn Noregi í Sotra Arena í nágrenni Bergen 5. apríl 2018. Viktor Gísli hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands og var m.a. í silfurliði Íslands á EM U18 ára í Króatíu sumarið 2018.
Viktor Gísli lék upp yngri flokka Fram og komst fyrst í meistaraflokk 2016. Hann vakti strax athygli fyrir frammistöðu sína og var m.a. valinn efnilegasti markvörður Olís-deildarinnar 2017. Hann gekk til liðs við GOG sumarið 2019 og hefur verið aðalmarkvörður liðsins allt yfirstandi keppnistímabil, jafnt í leikjum dönsku úrvalsdeildarinnar, í bikarkeppninni eða í Evrópudeildinni þar sem GOG hefur staðið í ströngu. GOG trónir á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir og hefur ekki tapað leik á leiktíðinni í deildinni heimafyrir þegar 17 umferðir eru að baki.
Fyrri kynningar: Ágúst Elí Björgvinsson, Björgvin Páll Gústavsson,