Næsti leikur íslenska 18 ára landsliðs kvenna á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Chuzhou í Kína verður við indverska landsliðið á fimmtudagsmorgun að íslenskum tíma. Um er að ræða krossspil í keppni um sæti 25 til 28 mótinu. Í hinni viðureign krossspilsins um sæti eigast við landslið Angóla og Kasakstan.
Ef tíðindaritari handbolta.is skriplar ekki á skötu minnisleysis þá verður þetta í fyrsta sinn sem landslið Íslands og Indlands eigast við á handknattleiksvelli.
Sigurliðin í leikjum krosspilsins mætast í viðureign um 25. sæti mótsins á föstudaginn. Tapliðin leika um 27. sætið sama dag.
Leikir Íslands sem eftir eru á HM 18 ára landsliða í Kína.
Fimmtudagur 22. ágúst kl. 7.45 (15.45 að staðartíma).
Ísland - Indland, krossspil um sæti 25 til 28.
Föstudagur 23. ágúst. kl. 7.45 eða 10 (15.45 eða 18 að staðartíma).
Ísland - Angóla eða Kasakstan, sæti 25 eða 27.
Í þriðja sæti
Íslenska landsliðið hafnaði í þriðja sæti af fjórum í milliriðlakeppninni sem lauk í morgun. Íslenska liðið lauk keppni með þrjú stig eins og Egyptar sem lögðu Gíneu, 18:12, í síðustu umferðinni í morgun eftir að íslenska landsliðið tapaði fyrir Rúmeníu. Egyptar voru með betri markatölu en íslenska liðið og hirti þar með annað sæti riðilsins og leika fyrir vikið um sæti 21 til 24.
Rúmenar sem unnu riðilinn leika um sæti 17 til 20, forsetabikarinn. Gínea rekur lestina í riðlinum og leikur um sæti 29 til 32 ásamt landsliðum Chile, Grænlands og Kanada.
HM18 kvenna – leikjadagskrá, milliriðlakeppni, úrslit