Íslenska landsliðið verður að vinna Spán á morgun í síðari leiknum í milliriðlakeppni heimsmeistaramóts 19 ára landsliða karla til þess að eiga möguleika á sæti í átta liða úrslitum mótsins. Þetta er niðurstaðan eftir eins marks tap, 29:28, fyrir Serbum í Kaíró í dag í leik þar sem Serbar voru með yfirhöndina nær allan tímann. Spánn vann Sádi Arabíu í dag er öruggt með sæti í átta liða úrslitum.
Takist Íslandi að vinna Spán á morgun ræðst framhaldið af markatölu í innbyrðis leikjum liðanna þriggja, þ.e. Íslands, Spánar og Serbíu.
Ef undan er skildar fyrstu mínúturnar þegar Ísland var yfir, 1:0 og 2:1, voru Serbar með yfirhöndina. Varnarleikur íslenska liðsins og markvarsla var ekki góð í fyrri hálfleik auk þess sem meiri aga og festu vantaði í sóknarleikinn. Sóknir voru oft og tíðum of stuttar.
Loks þegar bönd komust á varnarleikinn er komið var fram í síðari hálfleik og Jens Sigurðarson tók að verja varð sóknarleikurinn íslenska liðinu að falli. Um miðjan síðari hálfleik voru Serbar þremur mörkum yfir, 25:22. Þeir voru mest með fjögurra marka forskot. Serbar nýttu alla möguleika til þess að róa leikinn niður og fengu að komast upp með það hjá slökum dómurum frá Moldóvu.

Hinsvegar var það íslenska liðið sem fór illa að ráði sínu. Aga skorti upp á í sóknarleiknum á tíðum. Tvö sóknarbrot í síðustu þremur sóknunum fór með möguleikana eftir að Jens markvörður hafði kastað líflínu til félaga sinna með tveimur frábærum markvörslum úr opnum færum á síðustu 100 sekúndum leiksins.
Mörk Íslands: Dagur Árni Heimisson 7, Stefán Magni Hjartarson 7, Ágúst Guðmundsson 4/2, Bessi Teitsson 4, Garðar Ingi Sindrason 3, Jens Bragi Bergþórsson 2, Dagur Leó Fannarsson 1.
Varin skot: Jens Sigurðarson 6, 24% – Sigurjón Bragi Atlason 4/1, 29%.
HM19-’25: Milliriðlar, dagskrá, úrslit, staðan
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.