- Auglýsing -

HM19-’25: Ljóst að við þolum ekki marga daga

- Auglýsing -


„Við erum allavega með búninga og það helsta sem þarf í leikinn. En það er ljóst að við þolum ekki marga daga án þess að fá töskurnar og það sem í þeim er,“ segir Magnús Kári Jónsson liðsstjóri U19 ára landsliðs karla við handbolta.is. Tólf töskur landsliðsins urðu eftir á miðri leið á ferðalagi landsliðsins frá Íslandi til Kaíró í Egyptalandi á mánudaginn. Þær hafa ekki skilað sér ennþá. Landsliðshópurinn millilenti í Brussel í Belgíu og má ætla að töskurnar hafi orðið þar eftir.


Með það í huga að svona gæti farið á ferðalaginu þá voru leikmenn með í sínum handfarangri skó og keppnisbúninga fyrir fyrsta leikinn sem verður við Gíneu í dag. Flautað verður til leiks klukkan 9.45.

„Vonir standa til þess að töskurnar verði komnar til okkar í kvöld,“ sagði Magnús Kári bjartsýnn enda öllu vanur eftir að hafa marga fjöruna sopið með yngri landsliðum Íslands undanfarin ár.

Lítið er vitað um lið Gíneu sem íslenska liðið mætir á eftir. Á HM 20 ára landsliða á síðasta ári hafnaði landslið Gíneu í 23. sæti af 32 liðum. Vissulega er ekki um sama leikmannahóp að ræða og því er samanburður e.t.v. ekki marktækur.

Handbolti.is verður með augun á viðureign Íslands og Gíneu í dag eins og öðrum leikjum Íslands á HM 19 ára landsliða.


EMU17: Komnar í höfn í Podgorica – auðvitað vantaði töskur

EMU19: Farangurinn var skilinn eftir – „allt í reyk í Búkarest“

HMU19: Þungu fargi létt af Íslendingum í Đurđevac

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -