Króatar fóru illa með íslenska landsliðið í handknattleik í Zagreb Arena í kvöld og gerðu nánast út um vonir Íslendinga um sæti í átta liða úrslitum. Króatar unnu með sex marka mun eftir að hafa verið átta til 10 mörkum yfir allan síðari hálfleik. Þeir fóru með átta marka forskot inn í hálfleikshléið, 20:12, eftir hreint martraðarkendan leik íslenska landsliðsins á fyrstu 30 mínútunum. Þá stóð ekki steinn yfir steini, hvorki í vörn né sókn.
Harla veikar vonir
Von Íslendinga um sæti í átta liða úrslitum er orðin harla veik. Fyrst og fremst þarf íslenska liðið að vinna Argentínu á sunnudaginn í lokaumferðinni og bíða svo fram á kvöld þangað til Króatar og Slóvenar mætast. Slóvenar verða að reyta eitt stig af Króötum til þess að opna íslenska liðinu leiðina í átta liða úrslit. Eins og Króatar léku í dag með 12 þúsund áhorfendur á bak við sig verður að segjast eins og er það er harla ólíklegt að þeir tapi fyrir Slóvenum.
Ekkert gekk upp
Ekkert gekk upp í fyrri hálfleik. Varnarleikurinn var ekki sá sami og í síðustu tveimur leikjum. Þar af leiðandi var markvarslan slök og varin aðeins tvö skot frá Björgvini Páli Gústavssyni. Viktor Gísli Hallgrímsson náði sér ekki á strik fyrr en í síðari hálfleik þegar segja má að það hafi verið orðið um seinan.
Bætti gráu ofan á svart
Til að bæta gráu ofan á svart í fyrri hálfleik gekk sóknarleikurinn ekki sem best. Enn þyngdist róðurinn þegar Aron Pálmarsson fékk þungt högg á síðuna eftir miðjan fyrri hálfleikinn. Hann sýndi aldrei sitt rétt andlit í leiknum eftir það þótt hann kæmi fljótlega aftur til leiks og reyndi sítt besta.
Erfitt var að finna færi og opna króatísku vörnina. Þegar það tókst loksins þurfti Dominik Kuzmanovic að hitta á sinn leik í markinu. Markvörðurinn ungi reyndist íslenska liðinu óþægur ljár í þúfu allan leikinn.
Þrítugur hamarinn
Það var ekki gæfulegt að fara út í síðari hálfleikinn átta mörkum undir. Öll stemningin var með heimamönnum. Íslensku piltarnir reyndi að klífa þrítugan hamarinn. Það tókst ekki og Króatar léku af fullum styrk vegna þess að þeir þurftu á a.m.k. fjögurra marka sigri að halda til þess að halda vonum sínum vakandi um sæti í átta liða úrslitum.
Mörk Íslands: Viggó Kristjánsson 5/2, Aron Pálmarsson 4, Orri Freyr Þorkelsson 4, Sigvaldi Björn Guðjónsson 3, Janus Daði Smárason 3, Ýmir Örn Gíslason 2, Haukur Þrastarson 2, Elvar Örn Jónsson 2, Elliði Snær Viðarsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 12, 38,7% – Björgvin Páll Gústavsson 2, 13,3%.
Mörk Króatíu: Ivan Martinovic 8, Zvonmir Srna 6, Mateo Maras 5, Filip Clavas 3, Mario Sostaric 3, Marin Sipic 2, David Mandic 2, Igor Karacic 2, Marin Jelinic 1.
Varin skot: Dominik Kuzmanovic 17, 39,5%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Handbolti.is var í Zagreb Arena og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.