„Við búum okkur undir mjög erfiðan leik. Leikmenn Norður Makedóníu eru líkamlega sterkir,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari U18 ára landsliðs kvenna við handbolta.is í gær þegar hann var inntur eftir næstu viðureign íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í Skopje í Norður Makedóníu.
Íslenska liðið, sem er taplaust eftir fjóra leiki á mótinu, mætir heimaliðinu í kvöld en það hefur heldur ekki lotið í lægra haldi á mótinu. Bæði eru örugg um sæti í átta liða úrslitum keppninnar.
„Við æfðum síðdegis í gær þar sem fínpússuð voru nokkur atriði sem verða að vera á hreinu fyrir leikinn. Annars erum við tilbúin,“ sagði Ágúst Þór ennfremur. Ekkert er um alvarleg meiðsli í leikmannahópnum.
Liðin þekkjast vel. Ekki nema ár síðan þau mættust í úrslitaleik B-hluta Evrópumóts U17 ára landsliða. Íslenska landsliðið tapaði með einu marki, 27:26, í Klaipéda í Litáen. Að uppistöðu til eru liðin skipuð nánast sömu leikmönnum þá og nú.
„Við skuldum þeim ekki neitt. Okkar markmið verður að berja á þeim frá fyrstu mínútu. Við ætlum að gera okkur besta til þess að hefna fyrir tapið á EM í fyrra. Það ríkir mikil eftirvænting hjá okkur fyrir leiknum,“ sagði Lilja Ágústsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is í gær sem nánar má lesa hér.
Að lokinni viðureigninni í kvöld kemur í ljós hver verður andstæðingur íslenska landsliðsins í átta liða úrslitum á sunnudaginn.
Viðureign Íslands og Norður Makedóníu hefst klukkan 18.30. Handbolti.is verður að vanda með textalýsingu frá leiknum auk þess að tengill verður á streymi frá leiknum í Boris Trajkovski Sports Center íþróttahöllinni í Skopje.