- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU19: Fyrsta markmiðið er sæti í 16-liða úrslitum

Piltarnir í U19 ára landsliðinu hefja leik á HM í dag. Hér er mynd frá æfingu í gær. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Okkar fyrsta markmið er að komast í 16-liða úrslit mótsins og helst með tvö stig til þess að eiga meiri möguleika á sæti í átta liða úrslitum,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U19 ára landsliðsins í handknattleik karla í samtali við handbolta.is í gær.

Fyrsti leikur í dag

U19 ára landsliðið hefur keppni á heimsmeistaramótinu í Króatíu í dag með viðureign við Tékka. Á morgun verður leikið við Japan og á laugardaginn verður att kappi við Afríkumeistara Egyptalands.

Tvö efstu lið riðilsins komast í 16-liða úrslit, þangað sem hugur íslenska landsliðsins stefnir í fyrsta áfanga eins og kom fram hjá Heimi hér að ofan.

Leikir Íslands C-riðli:
2. ágúst kl. 13.30: Ísland - Tékkland.
3. ágúst kl. 13.30: Ísland - Japan.
5. ágúst kl. 13.30: Ísland - Egyptaland.
Leikirnir verða sendir út á youtuberás IHF. Streymi verður aðgengilegt á handbolti.is. Einnig verður textalýsing frá öllum leikjum Íslands á handbolti.is.

Allt þarf að ganga upp

„Vissulega þarf allt að ganga upp hjá okkur til þess að komast í átta liða úrslit. Til þess verðum við að vinna riðilinn sem verður erfitt verandi með bæði Egyptum og Tékkum í riðli, svo dæmi sér tekið,“ sagði Heimir en Tékkar voru sterkasta liðið úr fjórða og neðsta styrkleikaflokknum sem dregið var úr í riðlana. Tékkneska liðið vann eitt af B-Evrópumótum 18 ára landsliða á síðasta sumri.

„Sæti í 16-liða úrslit er okkar fyrsta markmið. Við förum í alla leiki til þess að vinna. Okkar fókus er þar,“ sagði Heimir.

Frá æfingu í keppnishöllinni í Koprivnica. Mynd/HSÍ

HMU19: Dagskrá, úrslit og staðan, riðlakeppni

Undirbúningur landsliðsins fyrir HM hefur staðið yfir í meira en mánuð og hefur gengið nokkuð vel. Strik setti í reikninginn að Atli Steinn Arnarsson fingurbrotnaði og varð að draga sig úr hópnum eftir miðjan júlí. Einnig var Breki Hrafn Árnason markvörður frá æfingum í nokkurn tíma vegna tognunar í læri.

Góður undirbúningur

„Annars gekk undirbúningur vel. Við lékum fimm vináttuleiki og auk æfingaleikja við félagslið heima. Saman áttum við mjög góðan tíma í Færeyjum á dögunum og eins í nærri viku í Þýskalandi við leik og æfingar. Strákarnir hafa æft mjög vel og virðast vera einbeittir á það verkefni sem við stöndum frammi fyrir.

Varnarleikur lykill að árangri

Þetta er flottur hópur stráka sem vill ná langt. Ef okkur tekst að ná upp góðum varnarleik þá getum við náð langt,“ sagði Heimir sem nýtti gærdaginn til þess að búa leikmenn sem best undir fyrstu viðureignina, gegn Tékkum sem hefst klukkan 13.30 í dag í keppnishöllinni í Koprivnica.

Öflugar skyttur Tékka

„Tékkar eru með mjög öflugar skyttur hægra og vinstra megin, hávaxnir piltar. Auk þess sem miðjumaðurinn góður og línumaðurinn sterkur. Við verðum að gæta okkar vel á Tékkunum,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U19 ára landsliðs karla í handknattleik við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -