- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU21: Draumur Færeyinga rættist ekki

Serbar fóru í undanúrslit á HM á kostnað Færeyinga. Mynd/IHF/Sasa Pahic Szabo / kolektiff
- Auglýsing -

Draumur frænda okkar frá Færeyjum um sæti í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik karla, skipað leikmönnum 21 árs og yngri, varð því miður að engu í dag þegar þeir töpuðu fyrir Serbíu, 30:27, í átta liða úrslitum í Max Schmeling Halle í Berlín.

Slakur fyrri hálfleikur og afleitar upphafsmínútur í síðari hálfleik urðu færeyska liðinu að falli en það lenti átta mörkum undir, 20:12, eftir fimm mínútur í síðari hálfleik. Þótt allt væri lagt í sölurnar þá tókst færeysku piltunum ekki að snúa taflinu við þótt þeir kæmust nærri því.

Fyrsta tapið

Þetta var fyrsta tap færeysku piltanna í mótinu. Þeir hafa unnið hug og hjörtu handknattleiksáhugafólks sem sást á að stuðningur við þá í keppnishöllinni í leiknum náði langt út fyrir raðir Færeyinganna sem voru í stúkunni.

Færeyingar mæta Dönum eða Þjóðverjum í krossspili átta liða úrslita á laugardaginn.

Héldu aftur af Elíasi

Færeyingar voru fimm mörkum undir, 14:9, eftir 20 mínútur. Sóknarleikurinn gekk ekki sem skildi. Serbar náðu að halda Elíasi Ellefsen á Skipagøtu niðri. Eins voru færeysku piltarnir í mestu vandræðum í vörninni með stóra og þunga leikmenn serbneska liðsins. Pauli Jacobsen markvörður náði sér ekki á strik meðan markvörður Serba, Luka Krivokapić, var vel með á nótunum.

Færeysku piltarnir gerðu hvað þeir gátu og eftir að hafa skorað tvö mörk í röð og minnkað muninn í þrjú mörk, 14:11, fór þeir illa með góða sókn til þess að koma forskoti Serba niður í tvö mörk, 14:12. Í staðinn bættu Serbar við fimmtánda markinu um leið og færeyskur varnarmaður var sendur í kælingu. Serbar voru fimm mörkum yfir hálfleik, 17:12.

Athygli vakti að Færeyringar léku aðeins með sjö menn í sókn þegar þeir voru manni fleiri en á stundum hafa þeir leikið með sjö menn í sókn frá upphafi. Léku þeir m.a. Spánverja mjög grátt með sjö manna sóknarleik.

Átta marka munur

Serbar skoruðu þrjú fyrstu mörk síðari hálfleiks og náðu átta marka forskoti, 20:12, áður en frændurnir Óli Mittún og Elías skoruðu þrjú mörk í röð og náðu aðeins að opna á vonina. Aleksandar Lacok skipti við Jacobsen í markinu. Lacok tók upp þráðinn þar sem frá var horfið í viðureigninni við Portúgal á mánudaginn.

Nær komust þeir ekki

Allt lagðist á eitt fyrir færeyska liðið sem beit frá sér og minnkaði muninn í tvö mörk, 24:22, tíu mínútum fyrir leikslok og fengu möguleika á að skora 23. markið. Tækifærið gekk þeim úr greipum. Aftur náðu Færeyingar að minnka muninn í tvö mörk, 26:24, þegar fjórar mínútur voru eftir. Nær komust þeir ekki.

Elías skoraði níu mörk og var markahæstur. Óli var næstur með fimm mörk.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -