Færeyingar gerðu sér lítið fyrir og skelltu Spánverjum í lokaumferð D-riðils á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla, skipað leikmönnum 21 árs og yngri, 34:31. Leikið var í Magdeburg.
Spánverjar eru ekki hverjir sem er í handknattleik í þessum aldursflokki. Nánast þetta sama lið Spánverja varð Evrópumeistari 20 ára landsliða fyrir ári síðan. Þrátt fyrir að vitað væri að færeyska liðið væri öflugt þá eru þessi úrslit svo sannarlega þau óvæntustu á mótinu til þessa.
Talsvert dró saman með liðunum undir lokin eftir að Færeyingar voru með 10 marka forskot 20 mínútum fyrir leikslok.
Þremur mínútum fyrir leikslok var forystan komin niður í þrjú mörk og farið að fara um menn, 33:30, þegar Spánverjar fóru í sókn en fengu dæmdan á sig ruðning. Pauli Mittún skoraði 34. mark Færeyinga skömmu síðar, 34:30. Næstu sókn Spánverja þar á eftir lauk einnig með sóknarbroti. Fargi var létt af færeyska liðinu og mörgum stuðningsmönnum þeirra sem fylgdu liðinu til Þýskalands.
Leikmenn spænska landsliðsins vissu ekki sitt rjúkandi ráð þegar þeir lögðu á ráðin að loknum fyrri hálfleik verandi 11 mörkum undir, 21:10. Færeyingar höfðu leikið þá grátt með sjö manna sóknarleik.
Í átta liða úrslit?
Þar með unnu Færeyingar riðilinn og taka með sér tvö stig inn í milliriðlakeppni mótsins. Um leið vænkast hagur frænda okkar á sæti í átta liða úrslitum mótsins sem væri svo sannarlega ekki aðeins saga til næsta bæjar eins og sigurinn í dag, heldur saga til næstu bæja.
Isaak Vedelsbøl og hornamaðurinn frábæri, Hákun West av Teigum voru markahæstir með átta mörk hvor. Elias Ellefsen á Skipagøtu skoraði sjö mörk. Rói Ellefsen á Skipagøtu skoraði fimm mörk.
Portúgal og Brasilía verða andstæðingar Færeyinga og Spánverja í milliriðlakeppninni á sunnudag og mánudag.