Íslendingar eiga eitt af fjórum bestu landsliðum heims í flokki karla skipað leikmönnum 21 árs og yngri. Íslensku piltarnir gerðu sér lítið fyrir og lögðu Portúgal með fjögurra marka mun, 32:28, í undanúrslitum í dag með stórbrotnum síðari hálfleik. Íslensku piltarnir leika við a Ungverjaland í undanúrslitum klukkan 13.30 á laugardaginn í Max Schmeling Halle í Berlín. Þeirri sömu og íslenska liðið vann Portúgal í dag.
Þrjátíu ár, 30, er liðin síðan Ísland var síðast í hópi fjögurra bestu í heiminum í þessum aldursflokki.
Íslensku piltarnir voru tveimur mörkum undir í hálfleik eftir erfiðan leik í þeim fyrri í höllinni sem kennd er við hnefaleikakappann þýska. Þeir ráku af sér slyðruorðið í þeim síðari, kýldu svo sannarlega frá sér í óeiginlegri merkingu.
Brynjar mætti öflugur til leiks
Varnarleikurinn var frábær og Brynjar Vignir Sigurjónsson markvörður átti stórbrotinn leik. Hann varði hvað eftir annað, sneri leiknum við og átti ekki hvað sístan þátt í að forskot Portúgals, sem komið var upp í þrjú mörk, rann þeim úr greipum.
Vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið
Sóknarleikurinn var frábær en um leið fremur einfaldur. Meira og minna var leikið einfalt og gott og það skilaði árangri. Tuttugu mörk skoruðu strákarnir í síðari hálfleik. Þorsteinn Leó Gunnarsson sprakk út og skoraði 11 mörk í leiknum. Vissu portúgölsku varnarmennirnir og markvörðurinn ekki hvaðan á sig stóð stormsveipurinn úr Mosfellsbæ.
Fleiri léku frábærlega og hreinlega fær allt liðið risastórt hrós fyrir stórkostlegan leik. Fremstur meðal jafningja auk þeirra sem þegar er getið var Andri Már Rúnarsson.
Rífið upp veskin!
Framtíðin er björt og hún er spennandi. Nú ættu einhverjir stórefnamenn á Íslandi að sjá sóma sinn í og slá púkk og greiða þann kostnað sem strákarnir verða að óbreyttu að leggja út fyrir þátttöku sína á mótinu.
Mörk Íslands: Þorsteinn Leó Gunnarsson 11, Andri Már Rúnarsson 5, Benedikt Gunnar Óskarsson 4/3, Símon Michael Guðjónsson 4, Arnór Viðarsson 2, Jóhannes Berg Andrason 2, Tryggvi Þórisson 2, Einar Bragi Aðalsteinsson 1, Stefán Orri Arnalds 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 8, 38% – Adam Thorstensen 5, 26%.
Handbolti.is er í Max Schmeling Halle og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.