- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU21: Noregur situr eftir – Danir, Færeyingar, Svíar Íslendingar meðal 16 efstu

Arnór Atlason lýkur embættiskyldum sínum hjá danska handknattleikssambandinu við stjórn U21 árs landsliðsins á HM. Mynd/IHF/Jozo Cabraja
- Auglýsing -

Norðmenn sitja eftir með sárt ennið á heimsmeistaramóti 21 árs landsliða í handknattleik karla. Þeir komast alltént ekki í 16-liða úrslit mótsins eftir að hafa tapað öðru sinni í dag í E-riðli mótsins. Að þessu sinni voru það Ungverjar sem lögðu norska liðið örugglega, 31:22.

Í fyrradag steinlágu norsku piltarnir fyrir Dönum, 33:22. Norska landsliðið tekur þar með þátt í keppninni um forsetabikarinn eins og lið 15 annarra þjóða. Alls eru landslið frá 32 þjóðum á mótinu sem haldið er í Grikklandi og í Þýskalandi.

Leikmenn norska landsliðsins ganga af leikvelli eftir tap fyrir Ungverjum í dag. Mynd/EPA/Jozo Cabraja

Uppgjör í E-riðli

Danska landsliðið, undir stjórn Arnórs Atlasonar vann Argentínu með þriggja marka mun, 31:28, í dag og er með fjögur stig eftir tvo leiki. Danir og Ungverjar mætast í uppgjöri um efsta sæti í E-riðli á morgun. Sigurliðið stendur vel að vígi í kapphlaupinu um sæti í átta liða úrslitum.

Ljóst er að Danir og Ungverjar mæta Svíum og að öllum líkindum Slóvenum í milliriðlakeppni mótsins. Í milliriðlakeppninni taka 16 liða þátt og verður þeim skipt niður í fjóra riðla. Tvö efstu lið hvers riðils komast í átta liða úrslit sem leikin verða í Berlín.

Slóvenar í kröppum dans

Slóvenar sluppu með skrekkinn þegar þeir kræktu í jafntefli við Barein í morgun, 29:29. Bareinar voru með yfirhöndina í leiknum frá upphafi og voru m.a. með tveggja marka forskot, 27:25, þegar skammt var til leiksloka.

Bareinum brást bogalistin í tveimur vítaköstum á síðustu mínútum og máttu svo sannarlega vera vonsviknir í leikslok og vinna ekki. Slóvenar jöfnuðu metin úr vítakasti fimm sekúndum fyrir leikslok. Barein mætir Svíþjóð á morgun og verður að vinna til þess að eiga einhverja von um sæti í 16-liða úrslitum.

Færeyska landsliðið ásamt vöskum hópi stuðningsmanna í Magdeburg eftir sigur á japanska landsliðinu í dag. Mynd/IHF/Sasa Pahic Szabo/kolektiff

Frændur okkar á flugi

Frændur okkar, Færeyingar, eru á miklu flugi og hafa tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum. Þeir skelltu landsliði Angóla á mánudaginn og fylgdu því eftir með öruggum sigri á Japan í dag, 39:34. Elias Ellefsen á Skipagøtu og Hákun West av Teigum skoruðu 11 mörk hvor fyrir færeyska liðið. Janus Dam Djurhuus leikmaður Íslandsmeistara ÍBV skoraði sex mörk.

Spánverjar eru einnig með fjögur stig í D-riðli sem fram fer í Magdeburg. Færeyinga og Spánverja bíða leikir við Portúgal og Brasilíu í 16-liða úrslitum. Áður en að þeim leikjum kemur á sunnudag og mánudag eiga Spánverjar og Færeyingar eftir að mætast í uppgjöri um efsta sæti riðilsins á morgun.

Sitja Frakkar eftir?

Óvíst er hvort Frakkar komast í 16-liða úrslit. Þeir verða að vinna Pólverja á morgun til þess að eiga möguleika. Eftir naumt tap fyrir Króötum í fyrstu umferð, 27:26, kárnaði gamanið hjá Frökkum. Vonir þeirra glæddust á ný í kvöld þegar Pólverjar og Króatar skildu með skiptan hlut, 30:30, í Magdeburg.

Mæta Serbum á morgun

Íslenska landsliðið vann sér sæti í 16-liða úrslitum í gær og átti frí í dag. Framundan er leikur við Serba um efsta sæti H-riðils á morgun klukkan 17.15 í keppnishöll Olympiacos í Aþenu.

Kemur ekki á óvart

Árangur Norðmanna og Frakka á mótinu kemur ekki í opna skjöldu. Lið beggja þjóða voru á meðal þeirra neðstu á EM 20 ára landsliða fyrir ári.

Heimamenn í Afríkuriðli

Þjóðverjar eru öruggir í 16-liða úrslit eftir tvo sigurleiki. Túnis mun elta Þýskalandi á næsta stig mótsins. Þjóðverjar mæta Alsírbúum á morgun en Túnis mætir liði Líbíu sem er án stiga og virðist þar á ofan eiga nokkuð í land að teljast samkeppnishæft á mótinu.

Stöðuna í öllum riðlum og leikjadagskrá morgundagsins er að finna hér:

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -