„Við höfum alla burði og getu til þess að vinna leikinn í dag. Í undanförnum umferðum höfum við rutt úr vegi stórum liðum, meðal annars spænska liðinu Málaga. Munurinn er ekki nema tvö mörk á okkur og Michalovce fyrir leikinn. Við höfum fulla trú á að við getum unnið,“ segir Hildigunnur Einarsdóttir leikmaður Vals sem hlakkar til viðureignarinnar við slóvakíska liðið MSK IUVENTA Michalovce sem hefst klukkan 17.30 í dag.
Um er að ræða síðari viðureign liðanna í undanúrslitum í Evrópubikarkeppninni í handknattleik. Takist Val að vinna með þriggja marka mun brýtur liðið blað og kemst fyrst íslenskra liða í úrslit í Evrópubikarkeppni kvenna.
MSK IUVENTA Michalovce lék til úrslita í Evrópubikarkeppninni síðasta vor en beið lægri hlut.
„Við erum spenntar. Það er líka gaman að spila þessa leiki með marga áhorfendur. Það gefur okkur öllum mikið að fá stuðninginn. Ég er viss um að margt fólk á eftir að mæta og styðja okkur,“ segir Hildigunnur Einarsdóttir hin þrautreynda handknattleikskona Vals.
Lengra viðtal við Hildigunni er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.
Síðari viðureign Vals og slóvakísku meistaranna MSK IUVENTA Michalovc fer fram í N1-höllinni á Hlíðarenda í dag. Flautað verður til leiks klukkan 17.30.
Rétt er að hvetja handknattleiksáhugafólk til þess að fjölmenna á Hlíðarenda á sunnudaginn og styðja Valsliðið til sigurs. Íslenskt kvennalið hefur aldrei leikið til úrslita í Evrópukeppni félagsliða.

Sjá einnig:
Við þurfum fullt hús á Hlíðarenda og alvöru frammistöðu
ÍBV og Valur komust í undanúrslit fyrir tveimur áratugum
Við getum og viljum vinna og komast úrslitaleikina
Með góðum stuðningi eigum við mikla möguleika