Aðalsteinn Eyjólfsson framlengdi á dögunum samning sinn um þjálfun svissneska meistaraliðsins Kadetten Schaffhausen til ársins 2023. Hann tók við þjálfun þess sumarið 2020 eftir að hafa þjálfað þýsk félagslið í 12 ár.
Kadetten Schaffhausen er sigursælasta handknattleikslið Sviss á þessari öld. Lið félagsins hafa til að mynda 11 sinnum orðið landsmeistarar frá 2005 er það vann meistaratitilinn í fyrsta sinn. Kadetten mátti sjá á eftir meistaratitlinum í vor til Pfadi Winterthur eftir að hafa unnið bikarkeppnina og verið hársbreidd frá sæti í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Kann vel við sig í Sviss
„Við höfum verið á leiðinni heim til Íslands síðustu þrjú ár en ekkert orðið úr og ljóst að af því verður ekki í bili. Okkur líður vel hér Sviss. Af þeim sökum þá slógum við til að bæta einu ári við úr því að það stóð til boða,“ sagði Aðalsteinn léttur í bragði þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í vikunni.
Alltaf eitthvað sem togar
„Eins og maður barðist hart í að komast út í þjálfun þá er orðið erfiðara að fara heim en maður reiknaði með. Það er alltaf eitthvað sem togar í eða þá að spennandi tækifæri bjóðast. Maður þarf að velta fyrir sér hvað börnunum er fyrir bestu. Ekki er hægt að bjóða þeim upp á það að flytja stað úr stað á tveggja, þriggja eða fjögurra ára fresti,“ sagði Aðalsteinn sem er kvæntur Birnu Haraldsdóttur. Þau eiga þrjú börn.
Aðalsteinn hefur átt afar farsælan feril sem handknattleiksþjálfari þótt hann hafi ekki verið ýkja áberandi eða mikið til umræðu hér heima á Íslandi.
Allstaðar framlengt samninga
„Hjá öllum þeim liðum sem ég hef þjálfað hér ytra hef ég framlengt samning minn. Það er eitt af því sem maður getur verið stoltur af á ferlinum, það er að menn hafa nennt að halda áfram að vinna með manni þótt að á einhverjum tímapunkti þegar á hefur liðið hafi leiðir skilið,“ sagði Aðalsteinn sem 44 ára gamall og þjálfaði síðast hér heima kvennalið Stjörnunnar frá 2005 til 2008.
Aðalsteinn Eyjólfsson hefur þjálfað hjá Stjörnunni frá 2000 - 2002 og aftur 2005 - 2008, Gróttu KR 2002 - 2003, ÍBV 2003 - 2004, TuS Weibern 2004 - 2005, SVH Kassen 2008 - 2010, ThSV Eisenach 2010 - 2014, TV 05/07 Hüttenberg 2015 - 2017, HC Erlangen 2017 - 2020, og Kadetten Schaffhausen frá 2020.
Framúrskarandi aðstaða
Aðalsteinn segir að allar aðstæður hjá Kadetten Schaffhausen séu eins góðar og best verður á kosið. Keppnishöllin nýleg og rúmar 3.500 áhorfendur í sæti. „Æfingaaðstaðan er framúrskarandi og allur aðbúnaður leikmanna eins góður hægt er að óska eftir. Með mér hef ég markvarðaþjálfara, styrktarþjálfara auk sjúkraþjálfara.
Öflug akademía
Auk þess er mjög öflug handboltaakademía rekin í tengslum við félagið. Fyrir vikið er mjög mikið líf í kringum félagið og keppnis- og æfingahöllina, nokkuð sem maður saknaði svolítið í Þýskalandi þar sem metnaður við þjálfun þeirra yngri er með ýmsu móti. Hjá Kadetten er aftur á móti mikill metnaður lagður í þjálfun yngri iðkenda meðal annars með starfsemi akademíunnar. Þess vegna eru margir leikmenn liðsins hjá mér uppaldir hér,“ sagði Aðalsteinn.
Staðan er góð
Kadetten hefur haft mikla yfirburði í svissnesku deildinni það sem af er leiktíðar. Liðið hefur unnið 12 leiki, gert eitt jafntefli en ekki tapað enn sem komið er. Aðalsteinn segir að vissulega hafi gengið vel til þessa en því megi ekki gleyma að Kadetten hafi leikið fleiri leiki á heimavelli en á útivelli.
„Framundan eru fjórir leikir á útivelli fram að áramótum. Ef við náum hagstæðum úrslitum í þeim leikjum þá getum við sagt að deildarkeppninni verði lokið að mestu leyti ef við verðum komnir með tíu eða tólf stiga forskot að þeim leikjum loknum,“ sagði Aðalsteinn.
Skýrt markmið
Markmiðið er skýrt hjá Kadetten eftir að hafa séð leikmenn Pfadi Winterthur vinna titilinn í vor. „Það voru vonbrigðin eftir mjög erfitt keppnistímabil á síðasta vetri að vinna ekki meistaratitilinn þótt við stæðum okkur vel í annarri keppni. Við urðum til dæmis bikarmeistarar og stóðum okkur vel í Evrópudeildinni þar sem við féllum naumlega út í 16-liða úrslitum eftir tap fyrir Montpellier.
15 leikir á 21 degi
Á tímabili í fyrri lékum við annan hvern dag og það var til þess að menn voru alveg búnir þegar kom fram á síðari hluta tímabilsins,“ sagði Aðalsteinn og nefnir sem dæmi að í desember fyrir ári lék Kadetten 15 leiki á 21 degi. Ástæða þessa var að fresta varð mörgum leikjum í framhaldi af kórónuveirusmiti sem kom upp innan liðsins og hjá andstæðingum Leikjadagskráin fór öll úr skorðum.
„Við gátum ekkert æft í tvo eða þrjá mánuði. Vorum á sífelldum ferðalögum og leikjum, jafnt heima sem og út um alla Evrópu. Á sama tíma lék Pfadi einn leik í viku.
Annað upp á teningnum
Nú er staðan önnur. Engum leik hefur verið frestað á keppnistímabilinu sem boðar vonandi gott fyrir framhaldið og síðari hluta keppnistímabilsins þegar kemur að úrslitakeppninni,“ sagði Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari Kadetten Schaffhausen í Sviss.