- Auglýsing -
- Það er auðvelt að hrífast með ævintýri handknattleiksliðs KA/Þórs sem varð Íslandsmeistari í kvennaflokki í gær eftir að hafa lagt Val í tvígang á sannfærandi hátt í úrslitaleikjum á undanförnum dögum. Ellefu af fjórtán leikmönnum er Akureyringar. Þær þrjár sem teljast ekki til innfæddra, Rut Arnfjörð Jónsdóttir, Sólveig Lára Kristjánsdóttir og Matea Lonac, falla svo vel inn í hópinn að einfalt er að halda að þær séu annað hvort úr Brekkunni eða Þorpinu en ekki frá Kópavogi, Reykjavík eða Króatíu.
- Þjálfarinn Andri Snær Stefánsson og hans hægri hönd, Sigþór Árni Heimisson, eru úr höfuðstað Norðurlands. Yfirvegunin uppmáluð sama á hverju gengur. Menn sem leggja ekki vana sinn að hnýta í andstæðinginn eða dómarana þótt ástæða hafi sjálfsagt gefist til. Engu er líkara en þeir hafi aldrei gert annað en að stýra meistaraliði í úrslitaleikjum þótt raunin sé að þeir eru nýgræðingar á því sviði þegar kemur að meistaraflokki.
- Yfirvegunin sem skín af þjálfurunum endurspeglast í leik liðsins. Ekki bara gegn Val heldur í mörgum öðrum viðureignum tímabilsins þegar soðið hefur á keipum innanvallar. Má þar m.a. nefna úrslitaleikinn um deildarmeistaratitilinn við Fram, viðureigninar við ÍBV í undanúrslitum, heimleikina við Val og ÍBV í deildarkeppninni og svo mætti eflaust lengi telja enn.
- Ekki er nema rúmt ár síðan KA/Þórsliðið lék til úrslita í bikarkeppninni í Laugardalshöll og hafði sannast sagna lítið í andstæðing sinn að gera. Úr varð einhver ójafnaðist úrslitaleikur keppninnar sem sögur fara af. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.
- Rut Arnfjörð kom til liðsins í sumar og Andri Snær settist í stól þjálfara. Koma Rutar til KA/Þórs kollvarpaði öllu innan liðsins. Eftir 12 ára veru sem atvinnumaður í handknattleik með nokkrum af bestu félagsliðum Danmerkur og Evrópu þá hreif hún samherja sína með sér, ekki upp á næsta þrep heldur upp tröppurnar. „Ég er ekki komin heim til þess að draga saman seglin,“ sagði Rut í samtali við handbolta.is í byrjun september.
- Annars má heita að sami hópur hafi orðið Íslandsmeistari í gær og tók þátt í bikarleiknum helgina áður en öllu var skellt í lás í byrjun mars í fyrra. Fimmtán mánuðum síðar er niðurstaða tímabilsins tvö töp í 20 leikjum keppnistímabilsins, Íslandsmeistaratitill, deildarmeistaratitill og sigur í Meistarakeppninni. Eftir á að hyggja er ljóst að sigurinn í Meistarakeppninni snemma í september var engin meistaraheppni eins og orð var haft á.
- Andri Snær, Sigþór og Rut hafa sennilega komið á hárréttum tíma inn í hóp sem hafði verið byggður upp jafnt og þétt. Margir höfðu lagst á árar sem langt mál væri að telja upp þótt eins sé sérstaklega getið og það er Jónatan Þór Magnússon. Þegar hann sagði mér eitt sinn að stefnan væri að byggja upp lið nyrðra með uppöldum leikmönnum skal viðurkennt að mér þótt það langsótt. Liðið var í Grill 66-deildinni og virtist ekki til stórræðanna. Hugmyndirnar myndu vafalaust fjara út með tíð og tíma.
- Ekki verður skilið við Íslandsmeistara KA/Þórs án þess að minnast á límið í hópnum, Mörthu Hermannsdóttur. Nær aldarfjórðungur er liðinn síðan hún lék fyrst í meistaraflokki. Margir samherjarnir í dag gætu verið dætur hennar. Ár eftir ár hefur vonin dregið hana áfram. Vonin um að einn góðan veðurdag væri hún hluti af liði KA/Þórs sem stæði bestu liðunum á sporði og e.t.v. vel það. Skammt frá fertugu er Martha í frábæru formi og æfir síst minna en þær sem eru helmingi yngri. Fyrirmyndin verður vart skýrari.
- Þótt oft hafi ekki blásið byrlega þá hefur kjarkurinn aldrei verið dreginn úr tannlækninum. Hún var að velta fyrir sé að hætta eftir síðasta tímabil. Þegar á hólminn var komið var ómögulegt að setja punktinn aftan við ferilinn með snubbóttum enda keppnistímbilsins vegna covidsins svo áfram var haldið. Nú er svo gaman að hún getur ekki hætt. Skal engan undra úr því að það gat líka verið gaman þegar síður gekk.
- Það þurfti ekki innmúraða Akureyringa til þess að hrífast með Mörthu á Hlíðarenda í gær.
- Hollur er heimafenginn baggi (og gúgglið nú).
- Til hamingju KA/Þór.
Ívar Bendiktsson, [email protected].
- Auglýsing -