- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hörður: Hafa skal það sem sannara reynist

- Auglýsing -

Handknattleiksdeild Harðar hefur sent frá sér neðangreinda tilkynningu vegna tilkynningar sem Vængir Júpíters sendu frá sér í dag þann 22. febrúar 2021:

„Hafa skal það sem sannara reynist. Mikilvægt er að passa vel upp á þá umræðu sem handknattleiksíþróttin fær. Mikilvægt að stuðla að uppbyggilegu samtali með samstarfi manna á milli. Handboltinn á undir högg að sækja vegna vinsælda annarra íþrótta og því mikilvægt að menn reyni að leysa málin í vinsemd og af skynsemi.

Vængir Júpíters og Hörður áttust við í handboltaleik á laugardaginn í Dalhúsum. Meðan á þeim leik stóð kom bersýnilega í ljós að Harðarmenn stóðu Vængjunum mun framar í handknattleiksíþróttinni og unnu sanngjarnan sigur og voru á tímabili 10 mörkum yfir.

Á ritaraborði leiksins var eftirlitsdómari, aðili sem titlaði sig ábyrgðarmann leiksins og svo ritari. Sá ritari bað forráðamann Harðar um erindi með númerum leikmanna. Sá listi var sendur honum klukkustund fyrir leik. Þar var sá leikmaður sem var sagður ekki vera á skýrslu nefndur og greindur með númeri. Sú handvömm að umræddur leikmaður skuli ekki vera á endanlegri skýrslu sem ritari leiksins býr til er sök beggja. Sök starfsmannsins að breyta skýrslunni (að hans sögn til að laga númeraröð) en jafnframt forráðamanna Harðar að skoða ekki betur útprentunina en þeir treystu á að starfsmaður leiksins myndi ekki að ósekju breyta skýrslunni eins og hún kom frá félaginu.

Tap gegn Herði virtist fara svo mjög í þjálfara Vængja júpíters að hann hefur ekki viljað ræða þetta mál við forráðamenn Harðar eða greina frá því hverjir væru stjórnarmenn í félaginu svo hægt væri að ræða málin. Ein hugmynd sem forráðamenn Harðar lögðu til væri sú að félagið legði til höfðinglega upphæð í Pieta samtökin sem Vængirnir voru að safna fyrir fyrr í vetur og myndu þannig láta eitthvað gott koma út úr þessum sameiginlegu mistökum og þannig gætu allir skilið sáttir. Ekki var áhugi á að hlusta á þá umræðu.

Hafa skal í huga að umræddur leikmaður er löglegur leikmaður með leikmannasamning við Hörð. Ekki í leikbanni eða annað. Hann er tvítugur einstaklingur sem einfaldlega lendir í þeirri óheppilegu stöðu að starfsmaður Vængja Júpíters færir nafnið hans til og það fer af skýrslu. Aðstoðarþjálfari Harðar fær svo skammir á sig núna fyrir að taka ekki eftir mistökum á ritaraborði Vængja. Hvernig getur félag sent frá sér yfirlýsingu um að Hörður hafi ekki skráð leikmann þegar það er ljóst að félagið gerði það.

Form á leikskýrslunni er ekki lögbundið í reglum HSÍ og því alveg ljóst að félagið skráði leikmanninn á leikstað hjá starfsmanni leiksins. Það er hafið yfir allan vafa.

Sýn okkar Harðverja á þetta er einfaldlega sú að úrslitin eiga að ráðast á gólfinu. Telji mótanefnd HSÍ þetta brot vera þess eðlis að það réttlæti umfjöllun m.v. þessa málavexti er það von okkar að meðalhófi verði beitt og ekki verði gripið til refsinga gagnvart Herði og Vængjum Júpíters vegna sameiginlegs brots félaganna. Telji Vængir og mótanefnd brotið hafa haft raunveruleg áhrif á úrslit leiksins er sjálfsagt mál að spila leikinn aftur strax í kvöld eða á morgun. Hörður mætir til leiks og vinnur handboltanum til heilla.

Við biðjum alla af heilum hug að reyna að leysa þetta mál með hagsmuni handboltans í huga en ekki á grundvelli þess að finna einhverskonar galla á framkvæmd leiksins. Leikurinn fór fram. Hörður tilkynnti leikmennina til þess aðila sem bað um númerin. Eftirlitsdómari, ritari og ábyrgðarmaður leiks taka ekki eftir neinu fyrr en leikurinn er byrjaður. Hér gerir starfsmaður leiksins, ritari leiksins, eftirlitsdómari mistök ásamt báðum liðum. Hvar er ábyrgð starfsmanna og heimaliðsins?

Hörður vann sanngjarnan sigur og því eiga leikmenn Harðar að líða fyrir það að starfsmaður leiksins geri mistök? Við biðjum alla hlutaðeigandi að einbeita sér að handbolta – ekki að deilum utan vallar. Leikurinn fór 29-35.

Endalaust er hægt að týna til af málum sem betur mega fara. Reglum um sóttvarnir var ekki fylgt, allir notuðu sömu innganga, starfsmenn á bekk Vængja voru ekki með grímur, starfsmenn leiksins voru ekki með grímur allan leikinn, einn leikmanna Vængja réðst á aðila í liði Harðar undir 18 ára aldri og svo framvegis. Þetta eiga allt að vera aukaatriði. Handboltinn og úrslit hans eru það sem á að gilda. Ekkert annað.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -