Hörður vann fyrstu viðureignina við Þór í undanúrslitum umspils Olísdeildar karla í handknattleik á Torfnesi í kvöld, 28:25, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 14:10. Næsta viðureign liðanna verður í Höllinni á Akureyri á föstudaginn. Líkt og í kvöld verður flautað til leiks klukkan 19.30.
Eftir að hafa átt undir högg að sækja lengi vel þá tókst leikmönum Þórs að minnka muninn í eitt mark, 21:20, þegar um 14 mínútur voru til leiksloka. Harðarmenn spyrntu þá frá sér með fjórum mörkum í röð. Þótt Þórsarar legðu allt í sölurnar á síðustu mínútum megnuðu þeir ekki að sauma að Ísfirðingum á nýjan leik.
Harðarliðið varð fyrir áfalli eftir nærri 13 mínútur þegar Endijs Kusners fékk beint rautt spjald fyrir brot í sókn.
Framan af leik benti ekki margt til þess að Þórsarar ætluðu að vera með í leiknum. Þeir skoruðu aðeins tvö mörk á fyrstu 12 mínútunum. Eftir 18 mínútur var staðan 9:4 og hvorki gekk né rak í sóknarleik Akureyrarliðsins. Jonas Maier varði allt hvað af tók í markinu.
Þórsarar létu ekki hug falla. Þvert á móti óx þeim ásmegin eftir slæman upphafskafla. Leikmönnum Þórs tókst að velgja Ísfirðingum undir uggum lengi vel. Allt kom fyrir ekki.
Þegar staðan var 10:7 fyrir Hörð, og hitna virtist vera í kolunum á Torfnesi, lognaðist út af sjónvarpsútsending frá leiknum. Alltént sást ekki meira á skrifstofu handbolta.is. Dregin er sú ályktun af tölfræði HBStatz að Jonas Maier markvörður Harðar hafi reynst Þórsurum þrándur í götu.
Mörk Harðar: Tugberk Catkin 8, Jose Esteves Neto 5, Otto Karl Kont 4, Kenya Kasahara 3, Jhonatan C. Santos 3, Axel Sveinsson 3, Guilherme Carmignoli Andrade 2.
Varin skot: Jonas Maier 22.
Mörk Þórs: Brynjar Hólm Grétarsson 10, Arnór Þorri Þorsteinsson 7, Aron Hólm Kristjánsson 3, Sigurður Ringsted Sigurðsson 2, Arnþór Gylfi Finnsson 1, Halldór Kristinn Harðarson 1, Þormar Sigurðsson 1.
Varin skot: Tómas Ingi Gunnarsson 11.