Alvarleg mistök áttu sér stað í Lanxess Arena fyrir viðureign Þýskalands og Íslands í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik í kvöld. Þegar kom að því að leika íslenska þjóðsönginn fór allt annað lag af stað. Enginn af þeim sem sitja nærri blaðamanni handbolta.is í keppnishöllinni kannaðist við lagið. Glöggt tóneyra blaðamanns gat ekki merkt að um íslenskt lag væri að ræða, mikið frekar að á ferðinni væri hrærigrautur af fleiri en einu lagi.
Því miður þá gekk þetta þvælulag í góða stund áður en slökkt var þegar flutningi þessara óskapa hafði verið mótmælt m.a. af þjálfara íslenska landsliðsins. Vallarþulurinn baðst afsökunar, því næst var klappað í góða stund áður en Lofsöngur Sveinbjarnar Sveinbjarnarsonar fór í loftið án alls vafa.
Ljóst er að þýskri nákvæmni er að fara aftur. Blaðamaður handbolta.is hefur farið á marga kappleiki út um allan heim en aldrei orðið vitni að því að rangur þjóðsöngur sé leikinn, hvað grautartónlist eins og þetta var.
Viðbúið er að Handknattleikssamband Íslands sendi inn kröftug mótmæli vegna uppákomunnar.
Uppfært rétt eftir leik: Strax að leik loknum bað fulltrúi Handknattleikssambands Evrópu HSÍ afsökunnar á mistökunum.