Íslandsmeistarar Vals fengu hraklega útreið í kvöld þegar þeir luku keppni í Olísdeildinni með 19 marka tapi, 33:14, fyrir Haukum í annarri viðureign liðanna í átta liða úrslitum. Þetta er í fyrsta sinn í sögu úrslitakeppni karla í handknattleik sem Íslandsmeistararnir falla úr leik í átta liða úrslitum. Um leið var þetta sjötti tapleikur Valsmanna í röð í Olísdeildinni og í úrslitakeppninni.
Afturelding vann Fram í heldur jafnari leik, alltént undir lokin, 24:23, á Varmá. Afturelding er þar með einnig komin í undanúrslit og verður andstæðingur Hauka í undanúrslitum. Fyrsta viðureign liðanna verður á Varmá föstudaginn 5. maí.
Engin rimma átta liða úrslita fór í oddaleik að þessu sinni.
Valsmenn voru heillum horfnir á Ásvöllum í kvöld. Haukar skoruðu sex fyrstu mörkin. Valur komst ekki á blað fyrr en eftir rúmlega 10 mínútur og þá var það markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson sem skoraði. Kollegi hans hinum megin vallarins fór á kostum og var með 70% markvörslu í fyrri hálfleik og alls um 64% þegar upp var staðið.
Í hálfleik voru Haukar níu mörkum yfir, 13:4. Úrslitin voru ráðin en samt létu menn sig hafa það að leika síðari hálfleikinn.
Langur meiðslalisti Valsara getur varla verið eina skýringin á þeirri útreið sem þeir fengu suður á Völlum.
Framarar voru sjö mörkum undir, 20:13, þegar rúmar 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik gegn Aftureldingu. Þeir gerðu þá áhlaup sem nærri hafði skilað þeim framlengingu. Allt kom fyrir ekki.
Úrslitakeppni Olísdeildar karla verður framhaldið með fyrstu viðureign FH og ÍBV í Kaplakrika 4. maí. Daginn eftir tekur Afturelding á móti Haukum.
Afturelding – Fram, 24:23 (13:9) – Afturelding vann 2:0 í leikjum talið.
Mörk Aftureldingar: Þorsteinn Leó Gunnarsson 8, Árni Bragi Eyjólfsson 7/2, Einar Ingi Hrafnsson 4, Birkir Benediktsson 3, Ihor Kopyshynskyi 1, Stefán Magni Hjartarson 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 8/1, 36,4% – Jovan Kukobat 3/2, 25%.
Mörk Fram: Marko Coric 4, Stefán Darri Þórsson 4, Stefán Orri Arnalds 3, Luka Vukicevic 3, Ólafur Brim Stefánsson 2, Reynir Þór Stefánsson 2/1, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 2, Magnús Öder Einarsson 1, Ívar Logi Styrmisson 1, Þorvaldur Tryggvason 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 7, 28% – Breki Hrafn Árnason 1, 14,3%.
Haukar – Valur 33:14 (13:4) – Haukar unnu 2:0 í leikjum talið.
Mörk Hauka: Guðmundur Bragi Ástþórsson 7/2, Össur Haraldsson 5, Ólafur Ægir Ólafsson 4, Þráinn Orri Jónsson 3, Andri Már Rúnarsson 3, Birkir Snær Steinsson 3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 1, Adam Haukur Baumruk 1, Kristófer Máni Jónasson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 18/2, 64,3% – Matas Pranckevicus 3, 50%.
Mörk Vals: Stiven Tobar Valencia 4, Bergur Elí Rúnarsson 3, Ísak Logi Einarsson 2, Breki Hrafn Valdimarsson 1, Arnór Snær Óskarsson 1, Jóel Bernburg 1, Agnar Smári Jónsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 8, 28,6% – Sakai Motoki 3, 20%.