Hrannar Ingi Jóhannsson átti stórleik þegar ÍR-ingar tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum Powerade-bikarsins í handknattleik karla með sex marka sigri á Þór, 38:32, í Íþróttahöllinni á Akureyri í dag. Hrannar Ingi skoraði 13 mörk og reyndist Þórsurum afar erfiður.
Þórsarar voru marki yfir í hálfleik, 17:16, og héldu frumkvæðinu áfram fram eftir síðari hálfleik. Voru þeir einu til þremur mörkum yfir. Eftir mikla baráttu tókst ÍR loks að jafna metin, 24:24 og komst í fyrsta sinn yfir í leiknum, 28:27, þegar 12 og hálf mínúta var til leiksloka. Upp úr því kom slæmur kafli hjá Þórsurum þar sem góð marktækifæri fóru forgörðum m.a. tvö hraðaupphlaup. ÍR-ingar létu ekki bjóða sér tækifærið tvisvar til þess að bæta við forskot sitt. Þeir keyrðu hratt á Þórsliðið og skoruðu hvert markið á eftir öðru úr hraðaupphlaupi og seinni bylgju. Þórsarar máttu því játa sig sigraða og ljóst að þeir eiga eitthvað í land að standast liðum Olísdeildar snúning.
Án Baldurs og Sveins
ÍR-ingar voru án markahæsta leikmanns Olísdeildar Baldurs Fritz Bjarnasonar og hornamannsins Sveins Brynjars Agnarssonar sem báðir eru meiddir.
Mörk Þórs: Brynjar Hólm Grétarsson 8, Sigurður Ringsted Sigurðsson 7, Aron Hólm Kristjánsson 6, Oddur Gretarsson 6, Arnór Þorri Þorsteinsson 3, Friðrik Svavarsson 1, Hafþór Már Vignisson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 11.
Mörk ÍR: Hrannar Ingi Jóhannsson 13, Bernard Kristján Darkoh 8, Eyþór Ari Waage 4, Sigurvin Jarl Ármannsson 4, Róbert Snær Örvarsson 4, Bjarki Steinn Þórisson 2, Jökull Blöndal Björnsson 2, Andri Freyr Ármannsson 1.
Varin skot: Arnór Freyr Stefánsson 8, Ólafur Rafn Gíslason 5.
Poweradebikar karla – fréttasíða.