„Mér líður gríðarlega vel. Ég er mjög stoltur með frammistöðu liðsins. Um leið er ég viss um að þetta hafi verið einn besti handboltaleikur kvennaliðs hér á landi um langan tíma, að minnsta kosti af okkar hálfu,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson glaðbeittur þjálfari Vals eftir að liðið vann 10 marka sigur á Slóvakíumeisturum MSK IUVENTA Michalovce, 30:20, og tryggði sér um leið sæti í úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik, fyrst íslenskra liða.
„Varnarleikurinn var frábær og markvarslan stórkostleg. Hraðaupphlaupin voru vel útfærð. Við skoruðum tíu mörk í hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik. Þar á ofan var sóknarleikurinn góður allan leikinn sem varð þess valdandi að við gáfum fá færi á okkur. Við förum þar af leiðandi verðskuldað í úrslitin,“ segir Ágúst Þór.
Magnað að standa í þessum sporum
Ágúst Þór segir hreint magnað að standa í þeim sporum með liðið að fara með það í úrslit í Evrópukeppni og skrifa þar með söguna.
Maður er bara hugsi
„Maður bara hugsi yfir hvað þetta var frábært og hversu spennandi framhaldið verður. Við fengum mjög marga áhorfendur og mikla stemningu á leiknum sem ég er afar þakklátur fyrir. Það var ekki bara Valsfólk sem kom heldur margir almennir handboltaáhugamenn og leikmenn annarra liða í deildinni. Vonandi verður uppselt á úrslitaleikinn og náum að landa Evrópumeistaratitlinum sem væri stórbrotið,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson eldhress í samtali við handbolta.is í N1-höllinni í kvöld.
Lengra viðtal við Ágúst Þór er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Andstæðingur Valsliðsins í úrslitaleikjunum verður spænska liðið Conservas Orbe Zendal Bm Porrino. Conservas Orbe Zendal Bm er með bækistöðvar í bænum Porrinu skammt frá Vigo í suðvestur-Galisíu, rétt norður af landamærum Spánar og Portúgal.
Úrslitaleikirnir verða 10. eða 11. maí og 17. eða 18. maí. Dregið verður á þriðjudaginn hvort liðið byrjar á heimavelli.
Sjá einnig:
Líður ógeðslega vel – þetta var rosalega gaman
Var svo fjarlægur draumur fyrir nokkrum árum
Valur í úrslit Evrópubikarsins – blað brotið í kvennahandbolta á Íslandi