- Auglýsing -
- Auglýsing -

HSÍ-menn vongóðir um að opnað verði fyrir æfingar

HSÍ væntir þess að opnað verði fyrir æfingar í handknattleik meðal ungmenna og fullorðinna um miðja næstu viku. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -

„Við erum vongóðir um að opnað verði fyrir æfingar í næstu viku þótt ástandið hafi eitthvað örlítið versnað síðustu daga varðandi veirusmitin,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands í samtali við handbolta.is í dag

Afrekshópar í handknattleik hafa ekki mátt æfa saman innandyra eða í hópum síðustu vikur og mánuði. Bannið hefur staðið lengur yfir á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Róbert segir alla innan handknattleikshreyfingarinnar hafa miklar áhyggur af stöðu ungmenna sem hafa hvorki mátt mæta til æfing hjá sínum íþróttafélögum mánuðum saman né mæta í skóla. „Staða þessa hóps er grafalvarleg og má búast við miklu brottfalli meðal iðkenda batni ástandið ekki hið fyrsta,“ segir Róbert.

„Það er mikilvægt að koma handboltafólki aftur á æfingar sem fyrst enda hefur það fæst æft sína íþrótt frá byrjun október. Til viðbótar þá er framundan heimsmeistaramót í handknattleik karla í janúar. Nokkur hópur leikmanna sem landsliðsþjálfarinn er með í sigtinu leikur með félagsliðum hér á landi. Til þess að svo verði er nauðsynlegt að þeir fari að æfa svo þeir eigi þess kost að vera inn í myndinni þegar liðið okkar verður valið til þátttöku á HM. Enginn vill missa af því að taka þátt í HM í janúar og hleypa birtu inn í skammdegið eins og handboltalandsliðið okkar hefur gert um árabil á þeim árstíma,“ sagði Róbert sem telur raunhæft að sóttvarnalæknir heimili æfingar fullorðinna í handbolta í minnisblaði því sem hann hefur eða á eftir að senda heilbrigðisráðherra.

Ekkert annað í spilunum

„Ég er bjartsýnn á að við megum fara að æfa sem allra fyrst. Það er ekkert annað í spilunum að mínu mati. Ég tel þess utan það vera alveg nauðsynlegt eftir langt hlé,“ sagði Róbert ennfremur.

Ekkert hefur verið leikið í Olísdeild kvenna síðan um 20. september og keppni í Olísdeild karla hefur legið niðri frá 3. október. Svipaða sögu er að segja um Grill 66-deildir karla og kvenna. Þá er keppni í Coca Cola-bikarnum ekki hafin.

Um hvaða áhrif langvarandi stöðvun æfinga og keppni hafi á gang Íslandsmótanna segir Róbert að ljóst sé að eftir því sem tímabilið lengist sem félögin mega ekki einu sinni æfa þá liggi fyrir að vart verði komist hjá því að skera mótafyrirkomulagið upp jafnvel þótt menn stefni enn á að leika fram í júní.

Móthaldið í skoðun

„Við munum skoða framhaldið ofan í kjölinn í desembermánuði þegar skýrari mynd fæst á þær aðgerðir sem taka við upp úr miðri næstu viku. Ef við getum ekki byrjað að keppa á ný fyrr en um mánaðarmótin janúar og febrúar þá held ég að það segi sig sjálft að eitthvað verður undan að láta þannig að mótahaldið verði eitthvað einfaldað. Ég held að það segi sig alveg sjálft. Á hvaða hátt það verður einfaldað er of snemmt að segja til um á þessu stigi,“ segir Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -